Eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:06:10 (459)

2001-10-15 15:06:10# 127. lþ. 10.4 fundur 146. mál: #A eignarréttur og afnotaréttur fasteigna# (lögheimili) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966. Er hér um að ræða breytingar á skilyrðum þess að útlendingar geti öðlast eignarrétt eða afnotarétt að fasteignum hér á landi.

Í 1. mgr. 1. gr. núgildandi laga er gerður áskilnaður um að útlendingur skuli hafa átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár til þess að hann megi öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi. Þó getur ráðherra veitt leyfi til að víkja frá þessu skilyrði samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna.

Á undanförnum árum hefur mikill fjöldi útlendinga sótt um slíka undanþágu, einkum makar íslenskra ríkisborgara. Hefur umsóknum um undanþágur frá lögunum fjölgað verulega frá rúmlega 100 umsóknum árið 1997 í hátt á þriðja hundrað umsóknir á síðasta ári. Undanþágu frá þessu skilyrði laganna hefur aldrei verið hafnað.

Með hliðsjón af þessu er lagt til í frv. að fyrrgreindur áskilnaður, tímalengd, þ.e. að útlendingur skuli hafa átt lögheimili hér á landi í fimm, ár verði felldur niður. Þess í stað verði nægilegt að útlendingur eigi lögheimili hér á landi til þess að hann geti öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign. Mun það einfalda ferli þessara mála, létta afgreiðslu umsókna um undanþágur af ráðuneytunum og bæta réttarstöðu þeirra útlendinga sem eiga lögheimili hér á landi og vilja kaupa fasteign. Flytji útlendingur hins vegar af landi brott rakna skilyrðin við á nýjan leik og hann verður því að sækja um leyfi samkvæmt lögunum til að kaupa fasteign eftir það. Vert er að árétta sérstaklega að þegar rætt er um útlending í þessu sambandi er aðeins átt við erlenda einstaklinga en ekki erlend fyrirtæki sem hyggja á kaup á fasteignum.

Þess ber að geta í lokin að sérreglur gilda um útlendinga sem koma hingað til lands til að stunda atvinnu eða stofna til atvinnurekstrar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og kaupa fasteign í því skyni hér á landi. Hefur lagabreytingin því ekki áhrif á þá.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.