Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:11:19 (461)

2001-10-15 15:11:19# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001 náði ég ekki að ljúka öllum þeim athugasemdum sem ég vildi koma á framfæri áður en málið fer til nefndar. Þeir atburðir gerðust hins vegar í kjölfar ræðu minnar þegar hv. þm. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, fór í andsvör, að óhjákvæmilegt er að eyða nokkrum orðum að því sem fram kom í andsvörum hv. þm.

Það er óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. geri þinginu grein fyrir því hvað þar var á ferðum vegna þess að hv. þm. vék m.a. að því að í frv. til fjáraukalaga væru ekki þættir sem hann taldi að þar ættu að vera, þ.e. að gert væri ráð fyrir heimild til þess að andvirði Skólabrúar 2 muni renna til framkvæmda á vegum Alþingis. Með þessum orðum er hv. þm. í raun að segja að einhverjar framkvæmdir hjá Alþingi hafi farið fram úr þeim fjárheimildum sem til staðar eru. Það kom hins vegar ekki fram í ræðu hv. þm. um hvað var verið að ræða. Í seinna andsvari kom hins vegar fram að eitthvað tengdist þetta hugsanlega fjárlögum síðasta árs. En það var þó ekki fyllilega ljóst.

Af þessum sökum spurði ég á fundi fjárln. í morgun fulltrúa frá forsrn. sem þar voru hjá okkur hvort skýringin væri sú að á leiðinni frá þeim til fjmrn. hefðu hugsanlega einhverjar upplýsingar glatast. Þar fékk ég þær upplýsingar að forsrn. hefðu sent Alþingi eins og öðrum stofnunum sem þeir sinna við fjáraukalagagerðina fyrirspurnir um það hvort hugsanlega væri eitthvað hjá stofnuninni sem þyrfti að fara inn í frv. til fjáraukalaga. Þessir fulltrúar í forsrn. svöruðu hins vegar þannig að engin svör hefðu borist frá hinu háa Alþingi og þeir þar af leiðandi dregið þá ályktun að ekkert væri þar á ferðinni. Því er óhjákvæmilegt, herra forseti, að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hugsanlegt sé að þessar upplýsingar hafi af einhverjum misgáningi farið í fjmrn. og þar verið stöðvaðar og það skýri orð hv. þm. um að framkvæmdarvaldinu væri ekki treystandi, þ.e. að framkvæmdarvaldið tæki ekki tillit til óska hins háa Alþingis til þeirra hluta sem metið er hér innan veggja að nauðsynlegir séu.

Herra forseti. Einnig vakti annað athygli mína í andsvari hv. þm., þ.e. annað en að framkvæmdarvaldinu væri ekki treystandi, og það var að fjárln. væri ekki treystandi. Vegna þess að þar þekki ég betur til en hjá framkvæmdarvaldinu vænti ég þess að um einhvern misskilning hljóti að vera að ræða þar sem ég kannast ekki við að fjárln. hafi ekki staðið sig í stykkinu í þessu efni og má jafnvel segja að það sé á ýmsan hátt til fyrirmyndar hvernig fjárln. hefur einmitt velt þessum málum fyrir sér í kjölfar skýrslu sem forsetar Alþingis fóru fram á að Ríkisendurskoðun ynni varðandi framkvæmdirnar í Austurstrætinu.

Herra forseti. Það er ekki tími til þess að rekja það mál allt saman hér en það er eðlilegt að hæstv. fjmrh. sé einnig spurður að því hvaða skilaboð hann telji að hv. þm., forseti Alþingis, sé að senda ýmsum öðrum stofnunum ríkisins þegar hv. þm. segir að þingið hafi tekið allar framkvæmdirnar í sínar hendur, allt eftirlit sem þeim tengist og, að því mér skildist, nær allar ákvarðanir einnig. Hvaða skilaboð er verið að senda öðrum ríkisstofnunum í kjölfar nýrrar reglugerðar sem hæstv. fjmrh. hefur nýlega sett og ég geri ráð fyrir að við flest innan þessara veggja teljum að gildi um allar stofnanir, jafnt Alþingi sem aðrar? Því spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hann að þessi yfirlýsing hv. þm. standist skoðun miðað við þessa nýju reglugerð?

[15:15]

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég hefði átt ýmislegt eftir að segja og koma á framfæri athugasemdum við fjárlagafrv. sjálft. Þetta var aðeins nauðsynlegur inngangur í kjölfar þeirra orðaskipta sem fóru á milli okkar hv. þm. Halldórs Blöndals á fimmtudaginn var.

Ég var staddur á bls. 63 í frv. til fjáraukalaga þegar fyrri ræðu minni lauk og þar er athyglisverð setning neðst á síðu sem ég tel óhjákvæmilegt að fá nánari skýringar á. Þetta er liður sem fjallar um alþjóðleg samskipti og augljóst að hér er hið þarfasta mál á ferðinni. En það sem vekur athygli mína er síðasta setningin sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Til stendur að yfirfara og endurmeta umfang og skipulag þessarar þjónustu.``

Hér er átt við alþjóðleg samskipti sem fram að þessu hafa verið greidd af öðrum aðilum, þ.e. af Evrópusambandinu. Hér hefði ég talið nauðsynlegt að fyrir lægi að sjálfsögðu þessi skoðun og yfirferð áður en slík tillaga er lögð fram í fjáraukalagafrv.

Á næstu síðu eru athyglisverðir hlutir sem tengjast utanrrn. Í ljósi orða sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lét falla um fjárlagafrv. vek ég athygli á ráðstefnum sem utanrrn. ýmist er að undirbúa eða hefur haldið. Það er meira að segja svo knappt áætlað til ráðstefna fyrir kjörræðismenn Íslands að sækja þarf um viðbótarfjárveitingu í fjáraukalagafrv. upp á litlar 2 millj. kr. Það hefði verið hægt að gera ráð fyrir því að einhverjir sjóðir gætu dekkað slíka upphæð og enn er spurt hvort hæstv. fjmrh. telji í raun eðlilegt að slíkar upphæðir séu settar í fjáraukalagafrv.

Þau ummæli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem ég minntist á voru um hið mikla fitulag í ríkiskerfinu sem enn mætti skera og tók hann þar sérstaklega fyrir ráðstefnur, ferðalög og annað þess háttar. Það er augljóst mál að þarna er hugsanlegt að velta fyrir sér hlutum í þessu samhengi. En þarna er einnig verið að ræða um 30 millj. kr. vegna undirbúnings utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins og augljóst að þar er jafnvel naumt skammtað þrátt fyrir að í fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir 170 millj. --- þarna er því verið að tala um 200 millj. kr. --- vegna þess að miðað við það sem fram kom hjá fulltrúum utanrrn. á fundi fjárln. í morgun telja þeir að þetta sé mjög varlega áætlað og eigi eftir að hækka töluvert mikið. Það er augljóst að þetta verður líklega stærsti fundur sem hér hefur verið haldinn og því eðlilegt að spyrja hæstv. fjmrh., þar sem hæstv. utanrrh. er ekki hér, hvernig á því standi að árið 2002 er valið til þess að halda þennan fund og hvort ekki hefði verið nauðsynlegt að gefa sér örlítið meiri tíma til undirbúnings þannig að menn gætu áttað sig örlítið á umfanginu áður en þeir ákveða slíkan fund.

Herra forseti. Svo er athyglisvert mál undir liðnum landbúnaðarráðuneyti þar sem verið er að fjalla um yfirdýralækni. Þar virðist hafa tekið ótrúlega langan tíma að bregðast við ákvörðun kjaranefndar sem kveðin var upp 16. nóvember 1999. Það er með ólíkindum að í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001 sé verið að biðja um fjármagn til þess að bregðast við því sem úrskurðað var um fyrir nærri tveimur árum síðan.

Herra forseti. Eins og ég bjóst við kemst ég ekki í þessari seinni ræðu, sem er aðeins tíu mínútur, yfir öll þau atriði sem ég hefði viljað koma á framfæri þannig að ég verð að reyna að stikla á stóru og velja úr. Ég bregð mér því yfir á bls. 70 þar sem fjallað er um merka gjöf til íslensku þjóðarinnar, þ.e. Auðunarstofu. Þar er lagt til að veitt verði 10 millj. kr. aukaframlag til byggingar Auðunarstofu. Skýringar á þessu eru m.a. taldar gengisbreytingar og vaxtakostnaður. Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að velta fyrir sér hvernig slíkt getur verið skýring á gjöf frá Norðmönnum til okkar, þ.e. hvernig gjöfin geti verið háð gengisbreytingum sem slík. Og hvaða vaxtakostnaður hefur fallið á þessa merku gjöf? Það er alveg óhjákvæmilegt að þingheimi sé gerð grein fyrir því hvernig þessir hlutir hafi orðið til. Því spyr ég hæstv. fjmrh. hvort hugsanlegt sé að fá einhverjar skýringar á þessu máli.

Síðasta atriðið sem ég vil minnast á í lokin varðar málefni fatlaðra í Reykjavík, en þar er afar sérkennileg beiðni. Farið er fram á 15 millj. kr. viðbótarframlag vegna þess að greiða þarf starfsmönnum ferðakostnað allt að fjögur ár aftur í tímann vegna ákvæðis í kjarasamningi. Ég spyr, herra forseti, hvernig getur það gerst að það sé ófyrirséð sem stendur í kjarasamningi og gildir a.m.k. í fjögur ár aftur í tímann?