Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:23:21 (463)

2001-10-15 15:23:21# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hér sé upplýst að þetta hafi verið mistök af hálfu fjmrn. En varðandi orð hv. þm. um að það eigi að ræða við forsn. en ekki einstök ráðuneyti um hvað gerist í forsn., þá var ég ekki að velta því fyrir mér hvað gerst hefði í forsn. vegna þess að ég taldi að hv. þm. hefði lýst því afar vel á fimmtudag, þ.e. að þetta hafi verið mistök einhvers staðar. Ég var eingöngu að leita upplýsinga um hvar þessi mistök hefðu getað orðið. Það er augljóst að forsrn. hefur skrifað Alþingi og spurst fyrir um hvort hugsanlega ætti eitthvað að fara inn í frv. til fjáraukalaga, en forsrn. hefur engin svör fengið við því. Það er upplýst hér af hv. þm. að það sé vegna þess að bréfaskiptin hafi átt sér stað við fjmrn. Því er augljóst, miðað við orð hv. þm., að mistökin liggja þá í fjmrn. og ég vænti þess að þau orð sem hv. þm. lét falla á fimmtudaginn um vantraustið eigi þar af leiðandi við fjmrn. eða að það verði skýrt á annan hátt af hv. þm. á eftir.

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt vegna þess að þessi umræða er hér hafin að hv. þm. skýri fyrir okkur, forseti Alþingis, við hvaða framkvæmdir hér er átt við. Til hvaða framkvæmda þarf þetta fjármagn, þ.e. söluvirði Skólabrúar 2, að fara til þess að hið háa Alþingi haldi sig innan fjárheimilda?