Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:25:42 (465)

2001-10-15 15:25:42# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er spurning hver talar út úr hól í þessu máli, en það er augljóst miðað við orð hv. þm. að greinilega er um Austurstræti að ræða. Það er ánægjulegt að þessar upplýsingar skuli koma hér fram. Það er rétt hjá hv. þm. að fjárln. hefur verið að velta þessu máli fyrir sér. Fjárln. hefur að sjálfsögðu fjallað um skýrslu Ríkisendurskoðunar um þessar framkvæmdir og augljóst er að ákveðnar fullyrðingar standast ekki, þ.e. að í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru ákveðnir hlutir fullyrtir sem var síðan í bréfi frá forsn. Alþingis gerð athugasemd við. Þar er önnur fullyrðing frá öðrum aðila og síðan kemur þriðji aðili við sögu sem er með þriðju fullyrðinguna.

Það er lykilatriði að þessi mál verði skýrð þannig að ekkert sé verið að velkjast í vafa um hvað hið rétta er í málinu. Það er líka mikilvægt að allir aðilar komist að niðurstöðu í málinu og geti lært af því þannig að þau mistök sem þarna urðu verði ekki endurtekin. Hv. þm. ætlar ekki að skorast undan því að bera einhverja ábyrgð á því og ég vona að enginn þeirra sem ábyrgð bera skorist undan því. Það er lykilatriði að við áttum okkur á því hverjir beri ábyrgðina og hverju við þurfum að breyta til þess að slíkir hlutir endurtaki sig ekki.

Nú eru hafnar framkvæmdir á Alþingisreitnum sem eru mikilvægar og afar mikilvægt er að vel takist til vegna þess að ég lít svo á að hið háa Alþingi hljóti að stórum hluta til að vera fyrirmynd í þessum efnum fyrir aðrar stofnanir hjá ríkisvaldinu. Ef okkur tekst það ekki þá er mjög erfitt fyrir okkur að gera þær kröfur til annarra að þeir sýni fordæmi sem hið háa Alþingi getur ekki gert sjálft.