Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:40:50 (469)

2001-10-15 15:40:50# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að endurtaka þetta. Það er kannski vont ef fjárlaganefndarmenn eru ekki allir inni samtímis, en þá er sjálfsagt að endurtaka þetta oft.

Ég tók ákvörðun um það um leið og ég varð var við að byggingin fór fram úr og bað Ríkisendurskoðun um að gera rækilega úttekt á málinu. Um leið og sú skýrsla lá fyrir kynnti ég hana öllum fjölmiðlum þannig að mönnum mætti vera ljóst hvaða slys hafði hér gerst. Og þá eins og nú reyndi ég ekki að bera neinar sakir af sjálfum mér í þeim efnum.

Í öðru lagi, eins og ég hef sagt áður, höfum við ráðið sérstakan reyndan, traustan verkfræðing sem hefur víða komið að í eftirlitsstörfum, m.a. við göngin undir Hvalfjörð, til að fylgjast með verkinu nú og hann gefur okkur mánaðarlegar skýrslur um hvernig verkið stendur og um fjárreiður. Það er því alveg ljóst að við höfum tekið ákvörðun um að reyna að fylgja þessu verki eftir eins vel og við mögulega getum. Og ég vænti þess að ekki þurfi til þess að koma að við þurfum að biðja um fjáraukaheimildir af þeim sökum, nema eitthvert slys hendi, sem ég á alls ekki von á að gerist og á ekki að geta gerst vegna þess hversu vel hefur verið staðið að undirbúningi útboða, hversu vel hefur verið staðið að því að fylgja útboðum eftir, gæta þess að þar séu engar villur, og með því að skrá rækilega og afgreiða jafnóðum þau mál sem upp koma.