Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:42:53 (470)

2001-10-15 15:42:53# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki mín tillaga að verið sé beint að veikja stöðu Alþingis gagnvart sjálfu sér. En að sjálfsögðu þarf að fara með málefni þess eftir sömu reglum og gilda um almenna opinbera stjórnsýslu. Og það verður vonandi stöðugt bætt þar um.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, herra forseti, að þessi umræða snýst ekki um hvort einstakir ábyrgðaraðilar, hvort sem það er virðulegur forseti þingsins eða ráðuneytisstjórar ráðuneyta eða framkvæmdastjórar fyrir einstökum stofnunum, þurfi að grípa til einhverra neyðarráðstafana. Þetta snýst um það að fjárreiður okkar og lög um fjárreiður ríkisins séu með þeim hætti að vinnan hjá framkvæmdarvaldinu geti gengið eðlilega fyrir sig. Það gerir hún ekki meðan framkvæmdarvaldið tekur sér það vald að ákveða skuldbindingar eða greiðslur sem ekki eru fjárlagaheimildir fyrir. Þó svo að þau geti búist við því og vænst þess að Alþingi samþykki það eftir á, þá á þetta ekki að gerast þannig. Þess vegna er afar mikilvægt að fjáraukalög verði gefin út tvisvar á ári, að vori --- og þá getur verið hægt að gera þær leiðréttingar sem nauðsynlegar eru og Alþingi er sátt við að gera og samþykka á fjárlögum yfirstandandi árs --- og síðan aftur að hausti, þannig að ekki þurfi að fara á svig við lög um fjárreiður ríkisins.