Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:01:39 (474)

2001-10-15 16:01:39# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Og svo kemur reikningurinn hingað, segir hv. þm. Auðvitað kemur reikningurinn hingað. En það verður að segjast um þessa fjárveitingu, þessa heimild, að aðeins er verið að undirbúa málið. Það er ekki búið að framkvæma eitt eða neitt í þessu máli. Hér er verið að biðja um fjárveitingu til undirbúnings fyrir ráðstefnu sem halda á hér á næsta ári. Það er ekkert óeðlilegt við það, finnst mér.

Auðvitað hefði mátt hugsa sér að þessi heimild hefði verið í fjárlögunum. Ég er ekki að segja að það hefði verið verra. En fyrst að svo var ekki er þetta í sjálfu sér fullboðlegt.

Mér fannst hálfklaufalegt hjá hv. þm. að minnast á Svíþjóð í þessu sambandi, að Svíar hefðu aldrei haft áhuga á því að halda NATO-þing. Auðvitað hafa þeir ekki gert það enda eru þeir ekki aðilar að NATO og hafa aldrei verið (SJS: Og líður vel.) þannig að ég varð dálítið hissa á þessari röksemdafærslu hv. þm. Það er eins og hann fylgist ekki betur með. Ég veit þó að hann veit betur en svo.

Auðvitað kostar þetta mikið. Það kostar mikið að fá hér hundruð manna á ráðstefnu frá svo miklu varnarbandalagi eins og NATO er. Ég tala nú ekki um á þeim tímum sem við lifum, þegar NATO stendur í því að reyna að knésetja hryðjuverkamenn um allan heim, hryðjuverkamenn sem hreykja sér af því að drepa sem flesta og senda núna hótanir í allar áttir.

Það er þannig ekki skrýtið þó að þetta kosti mikla peninga og ég segi, herra forseti, að við eigum að vera hreykin af því að vera aðilar að NATO, þessu bandalagi sem allar þjóðir í heiminum keppast um að fá að vera í í dag, meira að segja Rússar. Þó að það kosti okkur einhvern pening þá sýnir það einfaldlega að við ætlum ekki að láta okkar eftir liggja til að hlutirnir geti gengið eðlilega fyrir sig.