Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:06:18 (476)

2001-10-15 16:06:18# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:06]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil þakka mönnum fyrir þessar umræður um fjáraukalagafrv. fyrir árið 2001 þó að óneitanlega verði þær dálítið slitróttar þegar umræðum er skipt með þeim hætti sem óhjákvæmilegt reyndist að gera að þessu sinni, frá því að við hættum hér sl. fimmtudag og þar til þráðurinn var upp tekinn að nýju í dag.

Ég ætla ekki að fara í mikið af þeim smáatriðum úr þeim fyrirspurnum sem bornar hafa verið fram. Þar hefur verið vakin athygli á ýmsum þáttum í fjáraukalagafrv. eins og eðlilegt er. En það er eðlilegra að leita svara við flestum þeirra í fjárln., hjá fulltrúum þeirra fagráðuneyta sem hlut eiga að máli, að svo miklu leyti sem skýringar í frv. sjálfu eru ekki fullnægjandi að dómi manna.

Það er ævinlega þannig að menn geta verið ósammála um hvort rétt eða skylt sé að veita fé til ákveðinna tilefna en megnið af tillögunum í frv. er til komið vegna þeirra breytinga sem orðið hafa í efnahagsumhverfi okkar og hafa sett svip sinn á þróun ríkisfjármálanna á árinu. Ljóst er að af þeim 13,4 milljörðum sem óskað er eftir viðbótarheimildum til að inna af hendi samkvæmt þessu frv. eiga kjarasamningar, breytingar á gengi, hækkun bóta almannatrygginga, vaxtagjöld og fjármagnstekjuskattur, sem er til kominn vegna meiri eignasölu en áður var ráð fyrir gert, langsamlega stærsta hlutinn. Þar við bætast síðan ýmsir aðrir kerfislægir þættir og útreikningsmál, t.d. hækkun vaxtabóta og fleiri slík atriði. Aukin útgjöld Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna gengisbreytinga o.s.frv. eiga líka stóran þátt.

En menn hafa gaman af því að tala um það sem þeir hafa hér sjálfir kallað tittlingaskít, litlu upphæðirnar í þessu frv. Það orð var notað hér í umræðunni á fimmtudaginn. Menn geta auðvitað verið þeirrar skoðunar að lágar fjárhæðir séu þess eðlis. En ef málin eru þannig vaxin að um er að ræða ófyrirséð ný útgjöld fara þær upphæðir inn í þetta frv., hvort sem þær eru litlar eða stórar í sjálfu sér. Það er eðli hlutarins sem skiptir máli en ekki endilega sú upphæð sem um er að tefla.

Að því er varðar deilu manna hér fyrr á fundinum um Skólabrú 2, sem hæstv. forseti þingsins gat um á fimmtudag, þá skal ég taka á mig ábyrgðina á þeim mistökum að sú heimildargrein er ekki inni í þessu frv. Við lögum það þá bara á milli umræðna. Við forseti þingsins höfum rætt um þetta hvað sem líður bréfaskriftum þingsins við forsrn.

Ég ætla síðan að nefna örfá atriði sem menn hafa drepið á í dag, t.d. það sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson kom að varðandi Auðunarstofu. Þar er tekið dæmi um mál sem að vísu er ekkert mjög stórt í sniðum, 10 millj. kr., og gefnar á því ákveðnar skýringar í frumvarpstextanum sem hv. þm. finnast dálítið furðulegar. Hér er um það að ræða að aðilar í Noregi færðu Íslendingum gjöf. Það er alveg rétt. En þessi gjöf er þeim annmörkum háð að viðurinn í þetta hús sem kemur frá Noregi er gefinn Íslendingum sem tré úti í skógi í Noregi. Það kostar sitt í norskum krónum að gera sér mat úr þeim efnivið. Vissulega er þetta allt heldur óvenjulegt mál. Vegna þess hvernig það er í pottinn búið hafa því miður fallið til ótrúlega miklir og stórir kostnaðarliðir vegna verkefnisins. Mér finnst það afskaplega leiðinlegt, ég verð bara að viðurkenna það. Hún er undarleg og óvenjuleg sagan sem tengist þessu húsi.

En þetta hús verður að klára að byggja fyrst að á því var byrjað. Norðmenn gáfu okkur efnivið sem notaður verður til að byggja upp þetta fornfræga mannvirki. Við verðum auðvitað að manna okkur upp í að klára þetta verk. Hér er gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til að halda áfram verkinu á þessu ári, annarri fjárveitingu, að mig minnir 20 millj. kr. í fjárlagafrv. næsta árs og þar fyrir utan ætlar biskupsstofa, biskupsembættið, að leggja til ákveðið fjármagn til að hægt verði að klára þetta. Það veit ég að mun gleðja hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrum forstöðumann á Hólum.

Svona er það með þessi mál, þó að þau virðist lítil og óveruleg. Þau eiga sér öll einhverjar skýringar og þó að ég hafi munað skýringuna á þessu máli þá man ég kannski ekki nákvæmlega allar forsendur hvers einasta atriðis í frv. Ég mæli hins vegar með því að menn fari í gegnum þetta allt, eins og lög gera ráð fyrir, á vettvangi fjárln.

Það eru tvö önnur mál sem hefur borið á góma hérna. Annað er kostnaðurinn við einkavæðinguna. Menn hafa gert sér mat úr því að óskað sé eftir hlutfallslega tiltölulega háum nýjum fjárheimildum í forsrn., 342 millj. En af þeim eru 300 vegna kostnaðar við útboðs- og einkavæðingarverkefni. Það er náttúrlega vegna þess að frá því að fjárlög voru samþykkt fyrir þetta ár hefur sú stefna verið mótuð að fá til vinnu í þessu máli ráðgjafarfyrirtæki, innlent og erlent, sem kostar heilmikið. Það kostar heilmikla peninga að hafa slíka aðila í þjónustu sinni þó að það sé kannski tiltölulega lítið hlutfall af þeim verðmætum sem vinna þessara aðila hjálpar til við að skapa, vegna þess að verkefni þessara manna er náttúrlega að reyna að fá sem mest fyrir þær eignir ríkisins sem um er að ræða og standa þannig að málum að hægt sé að hámarka hag almennings af öllum þessum viðskiptum. Þetta er vissulega dýrt. Ég hef ekki nánari sundurliðun á þessu. Það var spurt um það hér í umræðu á fimmtudaginn hvernig þetta skiptist. Eflaust verður hægt að afla einhverra upplýsinga um það í fjárln. En þetta er skýringin á því að þetta verkefni er hér í fjáraukalagafrv., málið var ekki komið svo langt þegar fjárlög ársins voru afgreidd að þetta lægi fyrir. En viðkomandi aðilar hafa unnið verk sitt prýðilega vel, að því er ég best veit, þó að þeir séu dýrir starfskraftar.

Síðan er annað mál sem menn voru að skiptast á skoðunum um rétt áðan, NATO-fundurinn sem fyrirhugaður er á næsta ári hér í Reykjavík, þ.e. utanríkisráðherrafundur NATO. Þetta er engin venjuleg NATO-ráðstefna heldur utanríkisráðherrafundur. Á hann koma sem sagt utanríkisráðherrar allra NATO-ríkjanna 19 ásamt föruneyti.

[16:15]

Þar fyrir utan mæta utanrríkisráðherrar allra þeirra landa sem eru í samstarfsverkefnum með Atlantshafsbandalaginu innan vébanda ,,Partnership for Peace``, eins og það heitir á ensku, samstarfs um frið. Þannig að þetta verður gríðarlega fjölmennur fundur og á honum verða margir heimsþekktir einstaklingar vænti ég og mikið fylgdarlið. Margir þessara manna gera að sjálfsögðu sínar eigin ráðstafanir að því er varðar öryggi þeirra. Hitt er annað mál að allt slíkt þarf að tryggja mjög vel af hálfu heimamanna og auðvitað ljóst að því fylgir nokkur kostnaður. Við höfum ákveðið að óska í þessu frv. eftir 30 millj. kr. aukafjárveitingu til að setja þetta mál í gang. Síðan er óskað eftir stærri fjárveitingu í fjárlagafrv. sjálfu og jafnvel óljóst hvort hún nægir, en það mun væntanlega skýrast áður en fjárlögin verða afgreidd í desember.

Þetta var þó kannski ekki það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að amast við. Hann var eiginlega að velta upp þeirri spurningu hvort utanrrh. hefði nokkurt leyfi til að bjóða til svona ráðstefnu án þess að hafa rætt það á Alþingi og þá væntanlega fengið fjárheimildir fyrir fram. Ég skildi þingmanninn þannig, eins og hann talaði um aðferðafræðina í málinu.

Ég vil bara leyfa mér að halda því fram fullum fetum að utanrrh., fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þar sem þetta mál var rætt og ákveðið, hafi til þess fulla heimild. Síðan er það okkar verkefni, ríkisstjórnarinnar, að óska eftir fjárheimildum í þessu máli eins og við gerum með þessum hætti, bæði í þessu þingskjali og í fjárlagafrv. Þá er það auðvitað Alþingi sem ræður því hvort það vill leggja fram þessa fjármuni. Ef niðurstaða þingsins er sú að þingið vilji ekki gera þetta þá verður ekkert af þessum fundi. Þá verður bara ekkert af honum. Þá verðum við bara að segja frá því á vettvangi NATO að ekki hafi verið stuðningur við það í þessari stofnun sem fer með fjárveitingavaldið. Ég held að þetta sé allt frekar einfalt mál að því er hina formlegu hlið varðar.

Ég vil svo aðeins, út af fyrirspurn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um Íslending, segja að ekki lá fyrir til afgreiðslu nein aukafjárveitingarbeiðni sem mér er kunnugt um sem hægt var að taka afstöðu til varðandi það verkefni. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um það mál að þessu sinni.