Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:20:38 (478)

2001-10-15 16:20:38# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma aðeins aftur að ummælum þingmannsins um utanríkisráðherrafund NATO. Það er svo að þegar ríkisstjórnin tekur ákvörðun um að fallast á eða bjóðast til að vera gestgjafi á slíkum fundi þá gerir hún það auðvitað í trausti þess að hún hefur þingmeirihlutann á bak við sig. (SJS: Var hann spurður?) Þannig er ekkert vafamál í okkar huga að ríkisstjórnin hefur þingstyrk og fylgi til að taka ákvörðun af þessu tagi, sem eðli málsins samkvæmt er hennar verkefni. Þetta er auðvitað á verkefnasviði utanrrn. og utanrrh. sem leggur síðan málið fyrir í ríkisstjórninni.

Ég held því að menn þurfi ekkert að vera að deila um formsatriðin í þessu máli. Ég geri mér hins vegar alveg ljóst að hv. þm. er ekki hrifinn af fundahaldi af þessu tagi. Hann er bara á móti því að við séum að halda hér fundi á vegum NATO. Ég minnist þess í fljótu bragði að slíkur fundur sem þessi hafi tvívegis áður verið haldinn á Íslandi, síðast 1987 og þar áður 1968. Ég held að framkvæmdin hafi í bæði skiptin verið Íslandi og Íslendingum til sóma. Ég vona að það verði þannig líka árið 2002.