Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:22:02 (479)

2001-10-15 16:22:02# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:22]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ef ég man rétt voru eiginlega einu aðilarnir sem virkilega voru ánægðir með þetta NATO-fundahald hér á sinni tíð starfsmenn Bændahallarinnar, því að þeir fengu allir utanlandsferð af því að tæma þurfti Hótel Sögu svo að hátignirnar gætu hreiðrað um sig allar eins og þær lögðu sig.

En ég veit alveg að hæstv. fjmrh. er ekki alvara þegar hann reynir að verja aðferðafræðina í þessu máli. Það hlýtur að skipta máli hvort við erum að tala um eitthvað sem er það smávægilegt í útgjöldum að það nánast rúmist innan ramma rekstraráætlunar viðkomandi ráðuneyta eða hvort við erum að tala um útgjöld upp á hundruð milljóna. Það er ekki á hverjum degi sem menn bjóðast til þess að taka slíka hluti að sér og koma svo hingað með reikninginn og biðja um aukafjárveitingu.

Eigum við ekki að halda pólitískum ágreininingi um NATO-aðild utan við þetta og ræða, af því við erum hér að ræða um fjáraukalög, þessa aðferðafræði. Þá trúi ég ekki öðru en að hæstv. fjmrh. sé mér sammála um að þegar svona stórar tölur eru á ferðinni þá ætti að standa öðruvísi að málum.