Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:26:33 (482)

2001-10-15 16:26:33# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst skorta örlítið á það í ræðu hæstv. ráðherra áðan að við fengjum að heyra viðhorf hans almennt til ýmissa liða sem við höfum bent á að samkvæmt fjárreiðulögunum sé kannski örlítið hæpið að séu í frv. til fjáraukalaga. Ég vil þó endurtaka það sem ég sagði hér í fyrstu ræðu minni að mjög margt hefur færst til betri vegar og þetta er auðvitað miklu nær lagi en verið hefur undanfarin ár. Ég tel að stigin hafi verið mjög stór skref í rétta átt.

Ég minntist á eitt atriði í lok ræðu minnar hérna áðan sem væri gaman að heyra frá hæstv. ráðherra með, málefni fatlaðra í Reykjavík, þ.e. þegar verið er að greiða starfsmönnum fjögur ár aftur í tímann, eða eins og segir hér, með leyfi forseta: ,,... hafi þeir farið yfir svokallaða flutningslínu sem til margra ára hefur miðast við Elliðaá.`` Hér segir að svo hafi verið til margra ára, herra forseti. Það er athyglisvert vegna þess að í fjáraukalagafrv. á auðvitað ekki að vera annað en það sem er ófyrirséð. Það er alveg vonlaust að draga þá ályktun að það hafi verið ófyrirséð sem verið hefur inni í kjarasamningi til margra ára.