Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:33:06 (486)

2001-10-15 16:33:06# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:33]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Tíminn er stuttur, en engu að síður hlýt ég að halda áfram þessari upptalningu.

Sótt er um 2 millj. kr. fjárveitingu vegna fyrirhugaðrar formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Ríkisstjórnin samþykkti þetta á fundi sínum 27. febrúar sl. Hins vegar hafði legið fyrir mjög lengi að við mundum taka við þeirri formennsku, það var vitað.

Fyrir ári var gerður samningur varðandi uppbyggingu heilsugæslustöðvar í Hveragerði. Sá samningur var undirritaður fyrir ári. Nú er beðið um 3 millj. kr. aukafjárveitingu til að mæta húsaleigu í nýrri heilsugæslustöð sem átti að taka í notkun á miðju þessu ári, var gert, en vantaði peninga fyrir leigunni.

Og Félagsmál, ýmis starfsemi. Beðið er um 16 millj. fjárheimild til móttöku flóttamanna. Þetta er rangt. Þetta er til að mæta halla. Þetta er röng fullyrðing í fjáraukalagafrv. vegna þess að þessar 16 millj. eru aldeilis ekki til þess að taka á móti flóttamönnum núna á næstu vikum. Það er til að mæta uppsöfnuðum halla. Rétt skal vera rétt.