Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:35:14 (487)

2001-10-15 16:35:14# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um sérstakt átakt til að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Þetta mál er á þskj. 5 og er 5. mál þingsins. Auk mín eru það þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem bera fram þessa till. til þál.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera á næstu árum átak til að efla byggð um land allt og stuðla að jákvæðri þróun atvinnulífs og mannlífs. Átakið hefjist 2002 á Austurlandi og beinist að verkefnum á sviði þróunar-, byggða-, viðskipta- og menningarmála. Til þessa átaksverkefnis á Austurlandi verði veitt 400 millj. kr. árlega í sex ár af fjárlögum íslenska ríkisins. Þróunarfélagi Austurlands verði falin ábyrgð á ráðstöfun fjárins að því er Austurland varðar. Árangur og framvinda verkefnisins verði metin áður en tímabilið er hálfnað og í ljósi þess verði öðrum landshlutabundnum átaksverkefnum hrundið af stað. Hvert átaksverkefni standi í allt að sex ár og verði metið á sama hátt og það fyrsta. Við val verkefna verði annars vegar lögð áhersla á fjölbreytni í atvinnusköpun og hins vegar á stuðning við hvers kyns nýsköpun og þróun.``

Herra forseti. Þingályktunartillögunni fylgir eftirfarandi greinargerð:

Um nokkurra ára skeið hafa átt sér stað stórfelldir búferlaflutningar hér á landi. Mikil fólksfjölgun hefur verið á höfuðborgarsvæðinu en víðast hvar á landsbyggðinni hefur fólki fækkað að sama skapi eins og nýtt yfirlit Hagstofu Íslands yfir fyrstu níu mánuði ársins gefur til kynna. Þannig hefur t.d. ársstörfum undanfarið fækkað gífurlega í mörgum sjávarplássum með sölu og/eða flutningi aflaheimilda og aukinni tæknivæðingu í útgerð og fiskvinnslu. Á sama tíma hefur orðið mikill samdráttur í hefðbundnum búskap. Þjónusta við þessar undirstöðuatvinnugreinar hefur því einnig dregist saman. Einnig hefur dregið úr opinberri þjónustu á mörgum sviðum. Þegar búferlaflutningar verða umfram eðlilega þróun og fækkun íbúa fer að segja til sín í samfélaginu hefst flókið ferli sem ekki er einfalt að skilgreina. Við ákveðnar aðstæður flytur jafnvel það fólk sig um set sem hefur góða vinnu og húsnæði. Brýnt er að bregðast við þessari þróun og að mati flutningsmanna eðlilegt að til þess verði varið fjármagni úr sameiginlegum sjóði landsmanna en nýting þess verði á hendi heimaaðila. Með tillögunni sem hér er lögð fram er verið að stíga fyrsta skrefið af mörgum nauðsynlegum til að rétta hag landsbyggðarinnar.

Herra forseti. Eðlilegt þykir að hefja átak af þessu tagi á Austurlandi enda hefur áðurnefnd þróun í íbúafjölda og atvinnumálum komið fram af miklum þunga á Austurlandi. Nú svo komið að margar byggðir standa þar mjög höllum fæti. Hætta er á að þær veikustu leggist smám saman af á næstu árum ef ekkert verður að gert. Við þessa þróun í íbúa- og atvinnumálum á Austurlandi bætist sú staðreynd að væntingar fólks um hugsanlega stóriðju á Reyðarfirði hafa verið miklar, biðin hefur leikið marga grátt. Óvissa um eigið atvinnuöryggi og framtíðarsýn við óbreyttar aðstæður hefur fyllt marga vonleysi og óöryggi. Fólki hefur verið haldið í spennitreyju, það telur sig hvorki geta farið né snúið sér að öðru. Flutningsmenn telja ekki að stóriðja með risaverksmiðjum sé það úrræði sem leysi vanda landsbyggðarinnar, sérstaklega hvað jaðarbyggðir snertir út frá atvinnusvæði stóriðjunnar, og gildir það raunar um landið í heild. Þess í stað eigi að hlúa að fjölþættu atvinnu- og menningarlífi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Áríðandi er að grípa til aðgerða nú þegar. Í tillögu þessari til þingsályktunar er gert ráð fyrir að sérstakt átak verði gert á Austurlandi í atvinnumálum og athygli sérstaklega beint að verkefnum á sviði þróunar-, byggða-, viðskipta og menningarmála með það að markmiði að efla byggðina og auka fjölbreytni mannlífsins.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram fjölmargar tillögur í byggða- og atvinnumálum frá því að flokkurinn fékk fulltrúa á Alþingi. Ég vil vekja sérstaka athygli á því. Þær tillögur byggja á sjónarmiðum um jöfnuð og jafnræði og taka mið af því grundvallarsjónarmiði hreyfingarinnar að íbúar þessa lands eigi rétt á að búa við svipuð kjör óháð búsetu.

Viðbótartillaga þessi, herra forseti, er því viðbótartillaga við þá hugmyndafræði og tillögur sem áður hafa verið lagðar fram.

Mikið vantar á að fólk sem býr utan stærstu þéttbýlisstaða njóti sömu kjara og þeir sem búa í nánd við þjónustuna á höfuðborgarsvæðinu. Sem dæmi má nefna að lánakjör í bönkum virðast önnur þegar óskað er lána til starfsemi í dreifbýli ef taka á mið af aukinni ásókn í lán frá Byggðastofnun og gildir þá einu hvort um er að ræða skammtíma- eða langtímalán. Auk þessa virðist sem bankarnir reyni að komast hjá því að veita há lán til langs tíma til fyrirtækja á smærri stöðum. Þá vill brenna við að viðhorf til frumkvöðla í hinum dreifðari byggðum séu neikvæð og skilningur á mikilvægi þess að styrkja nýsköpun virðist takmarkaður. Að mati flutningsmanna þessarar tillögu væri aukinn stuðningur við frumkvöðla í fámennari byggðarlögum mikil lyftistöng. Þannig yrði fleiri og fjölbreyttari stoðum skotið undir samfélagið. Sérhæfð þjónusta við fyrirtæki og frumkvöðla er afar takmörkuð í fámennari byggðarlögum og því eru möguleikar til að hrinda hugmyndum í framkvæmd ekki margir.

En við viljum aðgerðir til jöfnunar. Því telur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð það mikilvæga grundvallarforsendu í hverju velferðarsamfélagi að tryggja fulla atvinnu og störf við hæfi. Jafnframt er næg og fjölbreytt atvinna ásamt öflugri velferðarþjónustu, traustu menningarlífi og öruggu umhverfi grundvöllur hverrar lífvænlegrar byggðar og forsenda farsællar byggðaþróunar.

Herra forseti. Í samræmi við þá afstöðu að jafna beri aðstöðu fólks og auka sem kostur er jöfnuð og jafnrétti í landinu, þar með talið aðstöðu manna óháð búsetu, vill Vinstri hreyfingin -- grænt framboð beita sér fyrir róttækum aðgerðum til að stöðva þá búseturöskun sem nú á sér stað og snúa þróuninni við með margháttuðum aðgerðum sem ná til landsins alls. Þær sérstöku aðstæður sem nú eru á Austurlandi kalla á tafarlausar aðgerðir af hálfu hins opinbera. Átaksverkefni til sex ára getur skilað miklu inn í austfirskt samfélag og nauðsynlegt er að slíkt verkefni sé sett fram og framkvæmt á forsendum íbúanna sjálfra. Átaksverkefnið þarf að vera hnitmiðað og jafnframt þarf það að treysta þá fjölmörgu þætti sem sterkt samfélag byggist á. Rétt er að endurskoða árangur og framvindu verkefnisins áður en tímabilið er hálfnað.

Styrkir og önnur fjárframlög til atvinnuþróunar í fámennari byggðarlögum eru af skornum skammti og mest af þeirri fyrirgreiðslu og þjónustu sem er til reiðu þarf að sækja til höfuðborgarinnar. Slíkt getur verið tímafrekt og kostnaðarsamt. Stuðningurinn er oftast bundinn lágum fjárhæðum og einungis hluta þess kostnaðar sem um er að ræða. Slíkir styrkir veita hvorki hugmyndum brautargengi né eru líklegir til að stuðla að þróun og nýsköpun í atvinnulífinu.

Herra forseti. Þótt sveitarfélögin, Byggðastofnun og fleiri aðilar hafi sinnt margvíslegum verkefnum sem hafa það að markmiði að styrkja atvinnu og búsetu og þrátt fyrir að margt gott hafi verið unnið að tilstuðlan þessara aðila á liðnum árum einkennast mörg þessara verkefna frekar af því að bjarga rekstri tiltekinna fyrirtækja og atvinnuöryggi á viðkomandi stað en því að stuðla að nýsköpun eða framþróun fyrirtækja í rekstri.

Atvinnuþróunarfélögin sem þegar hafa unnið sér fastan sess á nokkrum stöðum á landinu gegna lykilhlutverki þegar um er að ræða byggðatengdar aðgerðir og stuðning stjórnvalda við verkefni á landsbyggðinni. Að mati flutningsmanna eru þau best til þess fallin að greina þarfir samfélagsins hvert á sínu svæði og veita þá sérfræðiþjónustu sem við á hverju sinni. Þess vegna gerir tillaga þessi ráð fyrir því að Þróunarfélagi Austurlands verði falin umsjá með ráðstöfun fjárins.

[16:45]

Herra forseti. Ég ætla í nokkrum orðum að gera grein fyrir starfsemi Þróunarstofu Austurlands en hún starfar á breiðum grunni að framþróun í atvinnulífi og jákvæðri samfélagsþróun á Austurlandi. Stjórn Þróunarfélagsins skipa fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga og stofnana á Austurlandi auk fulltrúa Byggðastofnunar. Meginviðfangsefni félagsins er að vinna að eflingu atvinnulífs og samkeppnishæfni byggðarlaga á Austurlandi. Til að sinna því sem best stendur félagið fyrir víðtæku þróunarstarfi í landshlutanum.

Félagið rekur Þróunarstofu Austurlands og er starfseminni skipt í þrjú svið, þróunarsvið, viðskiptasvið og byggðasvið. Meginmarkmið er að starfrækja sérhæfða þróunarstofu sem hafi að leiðarljósi frumkvæði að framþróun í austfirsku samfélagi, sé fært um að axla ábyrgð varðandi atvinnu- og byggðaþróun og skili sýnilegum árangri. Starfsmenn Þróunarstofunnar hafa sýnt í verki að þeir geta skilað góðum árangri á öllum sviðum stofnunarinnar og eftirspurn eftir vinnuframlagi er miklu meiri en þeir geta sinnt. Áhersla hefur verið lögð á að koma þróunarstarfi sem víðast að í samfélaginu, jafnt hjá fyrirtækjum í rekstri og með stofnun nýrra rekstrareininga. Með þessum hætti hefur Þróunarstofan komið á þróunarstarfi langt umfram afkastagetu félagsins sjálfs. Þjónusta Þróunarstofu Austurlands hefur haft hvetjandi áhrif á atvinnustarfsemi í fjórðungum, sérstaklega utan hefðbundinna atvinnuvega í fiskvinnslu og landbúnaði.

Þróunarstofa Austurlands hefur unnið að stefnumótunarverkefnum sveitarfélaga, í menningarmálum og ferðamálum, stofan tekur þátt í erlendu samstarfi, rekur frétta- og þjónustuvef, stundar þróunarstarf af ýmsum toga og veitir ráðgjöf við stofnun nýrra fyrirtækja. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um starfssvið Þróunarstofunnar fram til þessa.

Herra forseti. Með því að lýsa starfsemi Þróunarstofunnar viljum við benda á mikilvægi hennar og draga fram hvað felst í starfsemi hennar, þannig að ljóst sé hvers vegna við felum Þróunarstofunni þetta verkefni, umsjá fjárins og að fylgja þessu verkefni eftir. En þó að ég nefni aðeins nokkur dæmi um starfssvið Þróunarstofunnar þá hefur árangur náðst, bæði með markvissri stefnu og því að flest stærstu fyrirtækin í landshlutanum, leiðandi fyrirtæki í mörgum greinum og ýmis önnur fyrirtæki, félög og stofnanir hafa stutt félagið með aðild, margháttaðri aðstoð og samstarfi. Á sama hátt hafa öll sveitarfélög á Austurlandi og Samband sveitarfélaga á Austurlandi staðið dyggilega að baki félaginu. Stuðningur Atvinnuþróunarsjóðs Austurlands hefur verið starfsemi Þróunarstofunnar mikilvægur en sjóðurinn hefur stutt Þróunarstofuna fjárhagslega og með því að styrkja margvísleg verkefni á hennar vegum. Þróunarstofan sér um daglegan rekstur Atvinnuþróunarsjóðsins.

Herra forseti. Þrátt fyrir góðan árangur á mörgum sviðum hefur fjárskortur haft mjög hamlandi áhrif á starfsemina. Fjárfestar hafa fram til þessa um of haldið að sér höndum þar sem mat á fjárfestingarkostum er kostnaðarsamt og þar af leiðandi óhagkvæmt að koma að umfangslitlum fjárfestingarverkefnum, sem eru hlutfallslega mörg á landsbyggðinni. Auk þess eru fjárfestingarkostir og framtíðarmöguleikar á landsbyggðinni enn ótrúlega illa kynntir og oft eru heimamenn sjálfir lítt trúaðir á þá kosti sem fyrir hendi eru. Þessu þarf að breyta. Miklir möguleikar eru fyrir hendi til að efla fjölbreytt atvinnu- og menningarlíf á Austurlandi en til þess þarf aukið fjármagn. Féð þarf að vera aðgengilegt í formi styrkja og lána á hagstæðum kjörum til lengri tíma. Mörg verkefni bíða úrlausnar á Austurlandi. Fé það sem tilgreint er í tillögunni mætti m.a nýta til eftirtalinna verkefna: Að koma á styrktarkerfi fyrir nýsköpunar- og þróunaverkefni sem tengt væri frumatvinnugreinunum, setja á stofn sérstök þróunarverkefni í sjávarútvegi og landbúnaði og sinna uppbyggingu rannsóknaumhverfis og kerfis er lyti ekki síst að hagnýtum rannsóknum. Þá má nefna að uppbyggingarstarf á sviði ferðaþjónustu er mjög brýnt og t.d. markaðsstarf og kynning á landshlutanum erlendis, í tengslum við komu nýrrar ferju til Seyðisfjarðar og beint flug til útlanda um Egilsstaðaflugvöll en hvort tveggja er í undirbúningi.