Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:02:17 (495)

2001-10-15 17:02:17# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:02]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Hefur hv. þm. talað við íbúa jaðarbyggðanna? Þeir eru Austfirðingar líka. Hvaða áhrif mun hugsanleg stóriðja á Reyðarfirði hafa á byggðir norðan Héraðs, sunnan Djúpavogs? Þetta er ekki á atvinnusvæði stóriðjunnar. Ætli það geti ekki verið að þetta hafi líka neikvæð áhrif, ekki bara jákvæð áhrif?

Vissulega eru jákvæð áhrif þau að mikil umsvif verða á staðnum meðan á uppbyggingu stendur en því miður geta svo mikil umsvif hugsanlega haft þau áhrif að þau kollsteypi því litla samfélagi sem er á Austurlandi.

Af því hv. þm. nefndi flutningsmann fyrri tillögu, fyrrv. þingmann Austurlands, Hjörleif Guttormsson, mætti ég þá biðja hv. þm. að bera saman þessi tvö verkefni, þ.e. það hv. þm. Hjörleifur Guttormsson talaði fyrir á sínum tíma og þann mannfjölda sem þá átti að vinna í hugsanlegri verksmiðju og þá stóriðju sem nú er verið að tala um.