Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:03:34 (496)

2001-10-15 17:03:34# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:03]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Vinstri grænir minna nú stundum á unglinga á mótþróastiginu sem benda yfirleitt á ,,eitthvað annað``. Nú eru þeir komnir hér með eitthvað annað sem er býsna erfitt að skilja. Menn tala t.d. um ,,störf við hæfi``, ,,á forsendum íbúanna sjálfra`` o.s.frv. Auðvitað er þetta ekkert annað en lýðskrum. Það kemur reyndar fram --- (Gripið fram í.) já, já, reyndar kemur fram að 20% íbúanna --- það er nefnilega gjarnan þannig þegar við erum í ræðustól að þá byrja vinstri grænir og sérstaklega foringi þeirra að gjamma frammí. Það kom fram í einu frammíkallinu áðan að 20% Austfirðinga væru á móti virkjun og stóriðju einungis. En ég spyr ef við setjum þetta upp á þennan máta, 400 millj. í sex ár, hvað með aðra landshluta? Og þetta er allt saman óskilgreint. Við vitum ekkert um hvað er verið að tala.

Hv. foringi Vinstri grænna talaði í frammíkalli um skógrækt, og Héraðsskógaverkefnið frá 1981, það væri virkilega eitthvað annað, en það er ekkert nýtt á bak við það.

Þannig halda þeir áfram, herra forseti, slíku lýðskrumi.

Ég sakna þess að sjá ekki í þessum tillögum það sem fólk í Vinstri grænum hefur verið að klifa á að undanförnu um að tína hreindýramosa, safna saman fjallagrösum, pressa hundasúru o.þ.h. en nú tala þeir um ferjuna. Ég veit ekki betur en að Byggðastofnun hafi lánað verulega til þessarar ferju.

Ég sé því ekkert í rauninni nýtt á bak við þetta. Og ég spyr: Hvað með aðra landshluta? Það eru aðrir landshlutar í vandræðum með atvinnu. Hvað með Vestfirði? Eigum við að færa alla þessa peninga á Austfirðina í sex ár? Og þá spyrja þingmenn auðvitað: Hvað með aðra landshluta? (SJS: Það er hér í tillögunni. Hefurðu ekki lesið tillöguna?)