Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:10:25 (500)

2001-10-15 17:10:25# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:10]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um sérstakt átak til að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Markmið þessarar tillögu eru með þeim göfugri sem maður hefur séð hér á prenti og get ég tekið undir öll þau göfugu markmið sem sett eru um að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni.

Í afskaplega ítarlegri greinargerð, sem allur þingflokkur Vinstri grænna stendur að, eru færð rök fyrir því hvers vegna þessi þáltill. er flutt. Til að gera langa sögu stutta fjallar greinargerðin, fyrri hluti hennar, um þá byggðaþróun sem átt hefur sér stað á Austfjörðum og reyndar annars staðar á landinu á síðustu árum. Og niðurstaða af því er sú að byggð á Austurlandi sé komin að hættumörkum. Þess vegna þurfi að grípa til einhverra ráðstafana, það þurfi með öðrum orðum að gera eitthvað og gera eitthvað fljótlega.

Undir þennan þátt greinargerðarinnar tek ég alveg af heilum hug, enda er það mjög í samræmi við það sem m.a. Byggðastofnun og flestir þeir sérfræðingar sem um hafa fjallað hafa sagt: að byggð á Austurlandi er komin alveg að hættumörkum og verði ekki gripið til aðgerða fljótt muni það hafa verulega alvarlegar afleiðingar. Undir þetta tek ég.

Þess vegna er afskaplega fróðlegt að sjá hverjar lausnirnar eru samkvæmt þeirri þáltill. sem hér er til umræðu. Ég get tekið undir með hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni að það er að mörgu leyti nokkuð erfitt að átta sig á því hverjar hinar skjótvirku lausnir eru. Vegna þess að ef þarf að grípa til aðgerða fljótt vegna hins hættulega ástands í byggðasamsetningunni á Austfjörðum, þá þurfi að grípa til skjótvirkra aðgerða.

Eitt er þó alveg ljóst samkvæmt þáltill. að stóriðja kemur ekki til greina. Það liggur líka nokkuð ljóst fyrir eða það má álykta út frá greinargerðinni að fiskeldið kemur heldur ekki til greina. Það er niðurstaða þingflokks Vinstri grænna (Gripið fram í: Rangt.) þrátt fyrir að Byggðastofnun hafi gefið það út ítrekað að eina sjáanlega aðgerðin sem geti snúið byggðaþróun á Austurlandi við með jákvæðum áhrifum á efnahagslíf, með jákvæðum áhrifum á byggðaþróun og þar fram eftir götunum og fyrir þjóðina í heild, sé það verkefni sem unnið er að og tengist Kárahnjúkum og álveri í Reyðarfirði.

Niðurstaða Vinstri grænna gengur þvert á það sem Þjóðhagsstofnun hefur sagt um þessi mál. Það gengur líka þvert á það sem fram kom m.a. í heimsókn hv. iðnn. upp á Grundartanga, þar sem m.a. bæjarstjórinn á Akranesi fór yfir það með nefndarmönnum hvaða áhrif stóriðja hefði haft á byggðarlögin á Vesturlandi þar sem þróunin var að sumu leyti svipuð og er að gerast núna á Austurlandi. Og það var annar tónn sem bæjarstjórinn á Akranesi boðaði, eins og yfirleitt Skagamenn og Vestlendingar sjálfir greina frá, en þau válegu áhrif og þau válegu tíðindi sem Vinstri grænir gjarnan boða ef gripið yrði til stóriðju. Þar hefur byggðaþróunin með öðrum orðum snúist við: Vestlendingar eru jákvæðir, þar fjölgar fólki, þar fjölgar störfum og almennt ríkir bjartsýni. Öfugt við þá svartsýni og þá neikvæðni sem þingflokkur Vinstri grænna boðar, ekki síst í efnahagsmálum og atvinnumálum.

[17:15]

Það var líka fróðlegt að heyra hjá hv. framsögumanni þegar hún sagði: Við boðum róttækar aðgerðir. Ég endurtek: Við boðum róttækar aðgerðir í atvinnumálum Austfirðinga. Hverjar eru nú þessar róttæku aðgerðir? Eftir að hafa rýnt gaumgæfilega í greinargerðina kemst ég að þeirri niðurstöðu sem hér hefur verið fjallað um --- að það á að leggja 400 millj. úr ríkiskassanum í eitt og annað. Hvað er nú þetta eitt og annað? Það er að efla ferðaþjónustu. Það er að kynna landsvæði. Það er að efla fræðasetur og menningu og það er að efla þróunarverkefni í landbúnaði og sjávarútvegi. Efla, styrkja, kanna, rannsaka. Ég spyr: Er þetta róttæk nýsköpun, rétt eins og Austfirðingum hafi aldrei dottið í hug að kynna ferðaþjónustu sína, efla fræðasetur sín og sinna þróunarstörfum í landbúnaði og sjávarútvegi? Það er alrangt. Austfirðingar hafa unnið merkilegt starf á því sviði þannig að þetta eru ekki róttækar aðgerðir. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að þetta er sýndarmennska, og ekki síður sé það skoðað í ljósi þess að í þessari greinargerð er talað um, eins og allir byggðasérfræðingar eru reyndar sammála um, að það þurfi skjótvirkar aðgerðir. Eru það skjótvirkar aðgerðir til þess að byggja upp atvinnulíf --- að rannsaka, að efla, að kynna? Á því sviði hefur heilmikið verið gert en því miður hefur það takmörkuðu skilað. Það þarf að grípa til aðgerða strax.

Ég tek þess vegna undir það með hv. þm. sem nefndi hér áðan að hugsanlega endurspeglaði þetta þá frægu atvinnustefnu Vinstri grænna sem kennd hefur verið við hundasúrur, fjallagrös og hveraörverur.

Það hefur heilmikið verið gert og það skiptir heilmiklu máli að sveitarstjórnarmenn upp til hópa á Austfjörðum, almenningur á Austfjörðum og nánast allir sérfræðingar sem að hafa komið, mæla með því að gripið verði til þess að ná skjótum jákvæðum áhrifum til þessa stærsta verkefnis sem ráðist hefur verið í í sögu þjóðarinnar. Markmiðin með þessari þáltill. eru afskaplega jákvæð og þau eru góð. Að sama skapi tel ég þau hins vegar vera eins fjarri raunveruleikanum og hugsast getur. Ég tel þau vera sýndarmennsku og yrði þessi stefna ofan á í byggðamálum, ekki bara Austfirðinga heldur þjóðarinnar allrar, væri verið að drepa landsbyggðina, að leggja hana niður í raun og veru.