Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:23:06 (504)

2001-10-15 17:23:06# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir auðvitað máli hvernig póstþjónustan er og það skiptir máli hvernig fjarskiptaþjónustan er. Um það er enginn ágreiningur. Það þarf ekkert að tyggja það enn einu sinni upp að að því er unnið. Þetta veit hv. þm. enda situr hann í samgn.

Við erum að ræða um atvinnuuppbyggingu í heilum landsfjórðungi og það sem ég reyndi að draga fram í ræðu minni, herra forseti, var að ég sé ekkert róttækt eða nýtt í þeim tillögum sem þingflokkur Vinstri grænna boðar, þ.e. að kynna landsfjórðunginn, að efla ferðaþjónustu, stuðla að einhverjum rannsóknum í frumgreinum eins og sjávarútvegi og landbúnaði og þar fram eftir götunum. Mér finnst það jaðra við móðgun við þá á Austfjörðum sem virkilega hafa lagt sig fram um að sinna þessum þáttum og gert það á sumum sviðum alveg með miklum tilþrifum og miklum ágætum. Og að kalla þetta róttækar tillögur til þess að bæta atvinnulíf Austfirðinga finnst mér jaðra við móðgun gagnvart Austfirðingum sjálfum.

Ég sé ekki að hér séu róttækar tillögur sem bæti núverandi atvinnuástand og snúi vörn í sókn. Ég var að reyna að draga þetta fram, herra forseti, og ég var líka að reyna að draga það fram og vitna til helstu byggðasérfræðinga þjóðarinnar, bæði hjá Byggðastofnun og Þjóðhagsstofnun, að verkefnið í Reyðarfirði er það skjótvirkasta og jákvæðasta fyrir atvinnulíf og atvinnuuppbyggingu á Austfjörðum eins og dæmin sanna, bæði áhrifin af Straumsvík og áhrifin af Grundartanga á Vesturland. Það var það, herra forseti, sem ég var að reyna að draga fram. En ég ítreka að ég sé ekki róttæknina eða frumleikann í þeim atvinnutillögum sem vinstri grænir kynna með þessari þáltill.