Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:39:39 (509)

2001-10-15 17:39:39# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. Halldór Blöndal minnir á mörg svæði á landinu þar sem er við erfiðleika að etja í byggðamálum, eins og Dali og Vestur-Skaftafellssýslu. Ekki er mér kunnugt um að það eigi að leysa vanda þessara svæða með álverum.

Við erum alveg sammála um að það þarf að taka betur á í þessum byggðamálum því núverandi ástand er óviðunandi. Það er algjörlega óásættanlegt að þessir hlutir haldi svo fram sem horfir.

Af hverju erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði ófeimin við að leggja til að umtalsverðum opinberum fjármunum verði á næstu árum varið til þessara verkefna? Það er vegna þess að við teljum þetta mjög góða fjárfestingu. Við teljum þetta eitt af því skynsamlegasta sem hið opinbera getur gert með fé sitt um þessar mundir því að það er enginn vafi á því að núverandi ástand, sú mikla byggðaröskun sem við búum við og höfum gert núna lengst af valdatíma ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem er að verða eitt versta tímabilið í þessum efnum í sögu þjóðarinnar, alla vega seinni áratuga og alda í sögu þjóðarinnar, er þjóðinni geysilega dýrt, óhagkvæmt og sársaukafullt á allan hátt.

Þess vegna eru þetta ekki miklir fjármunir, herra forseti, 2,4 milljarðar kr. Ef virðulegur forseti Alþingis hefði nennt að lesa tillöguna eða gert það án þess að snúa öllu á haus þá kemur það alveg skýrt fram að við erum að tala um 2,4 milljarða kr. í þetta átak á Austurlandi og sambærilegar fjárhæðir þá væntanlega til annarra svæða sem gjarnan mættu fara af stað samsíða og þá þarf enga röð. Þá þurfa menn ekkert að vera að vandræðast með það hvort þeir fari rangsælis eða réttsælis, eins og virðulegur forseti Alþingis. Menn bara ýta þá úr vör samtímis á öðrum svæðum.

Við teljum þetta ekki mikla fjármuni. Þó að það væru þessir 10--12 milljarðar sem hæstv. ráðherra nefndi í andsvari sínu áðan þá eru það ekki stórar tölur í ljósi þess að herkostnaður byggðaröskunarinnar fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu er metinn upp á nokkra milljarða kr. á hverju ári. Og álversdraumarnir eiga að kosta á þriðja hundrað (Forseti hringir.) milljarða kr. pakkinn. Eru þá 10--12 milljarðar í þessi verkefni mikið, ef það skilaði nú umtalsverðum árangri? (Iðnrh.: Borgar ríkið það?)

(Forseti (ÍGP): Ég minni hv. þingmann á að andsvaratíminn er tvær mínútur.)