Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:54:56 (513)

2001-10-15 17:54:56# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom við hv. þingmann að ég skyldi halda því fram að vinstri grænir væru óábyrgir í fjármálum en hann gat ómögulega rökstutt hið gagnstæða í máli sínu. Ég leyfi mér því að halda því fram áfram að þeir séu óábyrgir í fjármálum.

Hann talaði í fyrri ræðu sinni um pólitíska stýringu í bönkum. Það er í sjálfu sér í andstöðu við það sem formaður þingflokks Vinstri grænna sagði síðasta vetur, að ekki ætti að stýra bönkunum pólitískt --- þeir ættu að vera í eigu ríkisins. Þegar ég spurði hann hvernig ætti þá að ákveða þessa stefnu í bönkunum, þessum góðu bönkum sem áttu að vera í eigu ríkisins, ef stjórnunin ætti ekki að vera pólitísk þá hafði hann engin svör við því. Kannski getur hv. þm. frætt mig um þetta.

Hann segir að nota eigi þessa peninga, sem ég sé að nota á degi hverjum og eru þá væntanlega notaðir í eitthvað rangt, í aðgerðirnar sem þeir leggja til. Ég bið hv. þm. að benda mér á hvað er rangt við það sem ákveðið er að leggja fjármagn í undir mínum ráðuneytum. Það er eins og hv. þm. átti sig ekki á því að ástæða þess að við mælum með því að farið verði í stóra Noral-verkefnið fyrir austan er að fjárfestar eru tilbúnir að fjárfesta í verkefninu.

Hvað virkjunina varðar er það einfaldlega þannig að með þeim orkusamningi sem í undirbúningi er og allar líkur eru á að gangi upp fær Landsvirkjun greiddan allan þann kostnað sem hún hefur lagt í út af virkjuninni. Sá kostnaður sem núna verður af framkvæmdum fæst greiddur til baka þegar þessar framkvæmdir eru komnar í gang. Það er ekki eins og ríkissjóður sé að leggja allt þetta fjármagn í þetta verkefni. Hv. þm. ætti að vera búinn að átta sig á því.