Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:11:56 (520)

2001-10-15 18:11:56# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þm. Halldór Blöndal hefur að því er virðist gagnrýnt tillöguna fyrir það að hún eigi ekki að taka til annarra landshluta jafnframt nógu fljótt, þá er að sjálfsögðu rétt og skylt að ræða það. Ég tók það fram í ræðu minni að við sæjum það fyrir okkur að innan tveggja til þriggja ára væri hægt að hrinda úr vör verkefnum á öðrum svæðum. Ef menn vilja byrja enn fyrr, ef hv. þm. Halldór Blöndal telur ástandið í byggðamálum svo slæmt --- og ég get út af fyrir sig deilt með honum þeirri meiningu --- að það þurfi að grípa til aðgerða fyrr og um allt land, þá skulum við endilega ræða það. Ekki mun standa á okkur. Við erum einmitt að bjóða stuðning við það að farið verði í stórátak í þessum efnum.

Já, það er rétt að frumgreinarnar landbúnaður og sjávarútvegur og möguleikar þeim tengdir við úrvinnslu og ýmiss konar virðisaukandi starfsemi tengda þessum frumgreinum eru nefndar í tillögunni. Af hverju skyldi það nú vera? Er ekki líklegt að möguleikar landsbyggðarinnar sem byggja ekki síst á þessum tveimur megingreinum, alla vega strjálbýlisins og byggðakeðjunnar við sjávarsíðuna, liggi fólgnir í ýmsum hlutum sem tengjast eðlilega þessum höfuðatvinnugreinum svæðanna? Auðvitað er það svo. Þar er til staðar margs konar þekking og aðstaða sem er hægt að nýta og er verið að reyna að nýta í ýmiss konar virðisaukandi starfsemi og menn mættu hafa meiri stuðning við það.

Það er rétt að ég er enginn sérstakur stuðningsmaður stóriðjuframkvæmda almennt. En ég áskil mér rétt til að skoða hvert einstakt tilvik í þeim efnum og hef reynt að gera það. Sama gildir með virkjanir. Ég hef ekki lagt stein í götu þeirra og hef getað stutt margar virkjanir sem hér hefur verið farið í af því að það hefur vantað rafmagn, samanber stækkun Kröflu, Vatnsfellsvirkjun, Sultartangavirkjun, eðlilegar virkjanir sem hafa sér samfara enga eða ekki umtalsverða viðbótarröskun í náttúrunni og voru eðlilegir kostir að taka. En það þýðir ekki að ég skrifi upp á hvað sem er. Það hroðalega við þá nauðhyggju sem hér er rekin áfram er að menn vaða blint áfram án tillits til þess hvaða umhverfisáhrif eru af þeim framkvæmdum sem í hlut eiga hverju sinni.

Það er hægt að hugsa sér margs konar stóriðju sem notar m.a. orku og mikinn mannafla þar sem hvert starf kostar ekki jafnmikið og í þessari álbræðslu sem þeir sjá eina.