Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:14:14 (521)

2001-10-15 18:14:14# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:14]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ræddi almennt um tillöguna eins og hann hafði áður gert og aðrir flutningsmenn hennar. En ég var að spyrja um sérgreint atriði. Ég var að spyrja hvort hann gæti skýrt fyrir þingheimi hvað hann ætti við þegar stendur í greinargerð með tillögunni, með leyfi hæstv. forseta:

,,... setja á stofn sérstök þróunarverkefni í sjávarútvegi og landbúnaði ...``

Mér fyndist auðvitað mjög gagnlegt ef slíkt kæmi fram. Við erum annars vegar að tala alveg skýrt um að styrkja atvinnulíf á Austurlandi með þeim hætti sem meiri hluti Austfirðinga leggur áherslu á. Það er alveg rétt sem gefið er í skyn í greinargerð með þessari tillögu að Austfirðingar yrðu fyrir miklum vonbrigðum og við getum sagt áfalli ef svo færi að ekki yrði ráðist í stóriðjuframkvæmdir við Reyðarfjörð.

Ég er alveg sammála flutningsmönnum um að þær vonir sem fólk hefur um styrkari og breiðari atvinnugrundvöll eru miklar og þess vegna áfall ef þær vonir verða að engu. Með hliðsjón af því yrði gagnlegt ef flutningsmaður gæti talað skýrar um það sem hann ber fyrir brjósti. Ef á bak við þessa tillögugrein eru bara þessar almennu vangaveltur sem við höfum verið með um byggðamálin síðasta áratuginn, líka þegar þessi hv. þm. var í ríkisstjórn, þá er það nú ekki virkilega bitastætt. Ég hygg því að flestir séu okkur sammála um að óhjákvæmilegt sé að við ráðumst í byggingu álversins.