Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:33:37 (527)

2001-10-15 18:33:37# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:33]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst hvers vegna við viljum byrja á Austurlandi. Þar hefur fólksfækkun verið mikil sem og á öðrum stöðum á landinu en einhvers staðar viljum við byrja. Það er ekki hægt að álasa okkur fyrir það að hafa aðra sýn til uppbyggingar byggða í landinu en stóriðjusýnina eina sér.

Ég vildi óska þess að hv. þm. kynntu sér stefnu og strauma í uppbyggingu dreifðra byggða í nágrannalöndum okkar. Við getum farið til Skotlands, við getum farið til Írlands, við getum farið til Norðurlandanna og við getum séð að þeir hafa allt aðrar áherslur en stóriðjustefnuna. Og við höfum fengið að heyra hjá sérfræðingum sem hafa komið frá þessum löndum og sem hafa sinnt byggðamálum að því miður séum við 10--15 árum á eftir okkar samtíð. Við eigum að læra af reynslu þeirra. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er ekki á móti því að virkja fallvötnin, við erum ekki á móti Austfirðingum, við höfum aðra sýn til byggðaþróunar.