Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:34:56 (528)

2001-10-15 18:34:56# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:34]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ekki neinu við þetta að bæta nema ég get sagt að ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. um það sem hún sagði, að við erum 10--15 árum á eftir öðrum í sambandi við byggðamál, og ég fór mjög vel í gegnum það í ræðu minni þar sem ég var að tala um svæðisbundna byggðastefnu, hvort sem þar er verið að tala um tryggingagjaldið, skattamálin, þungaskattinn eða annað, og fjarvinnsluverkefnin sem hefur verið vitnað hér til, bæði á Írlandi og Skotlandi. Að sjálfsögðu hefur verið mikilfengleg atvinnuuppbygging í hinum smáu byggðarlögum þar.

Það hefur e.t.v. líka verið gert í krafti þess að þau lönd eru innan Evrópusambandsins og hafa notið stofnstyrkja þaðan og þess líka að Bandaríkjamenn, bandarísk fyrirtæki, hafa sótt mjög til þessara landa til þess að láta vinna alls konar vinnu í fjarvinnslu. Og það er hárrétt sem hér kemur fram, og ég ætla að taka undir það, að við erum langt á eftir í byggðamálum og það er sannarlega rétt að byggðavandi undanfarinna ára kostar þjóðarbúið mikla peninga.