Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:38:26 (530)

2001-10-15 18:38:26# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:38]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af andsvari hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar ítreka ég það sem ég sagði áðan: Ég tel að þessi tillaga sé ekki í takt við þá svæðisbundnu byggðastefnu sem ég hefði viljað sjá vegna þess að ég vil horfa á landið allt, ekki eitt kjördæmi út af fyrir sig. Ég segi alveg hiklaust að ég bíð eftir því að sjá hvað kemur út úr þeirri byggðaáætlun sem verið er að vinna núna. Ég vonast til að út úr henni komi eitthvað bitastætt og verði eitthvað sem á að vinna í og gera en ekki orð eða eitthvað sem sett er á prent og ekki verður unnið eftir eins og hefur gerst í núverandi byggðaáætlun.

Bara rétt í lokin, herra forseti, um þá þáltill. sem hér er fjallað um og snýr að Austurlandi. Mig langar að spyrja hv. þm.: Hvað með Norðausturland og Norðausturlandskjördæmi? Hvað með t.d. Raufarhöfn? Við höfum séð það núna og sjáum hvernig fólk hefur flutt þaðan og íbúum fækkað. Við sjáum það núna og heyrum neyðarkall frá Raufarhöfn vegna framkvæmda við höfnina. Mikla peninga þarf að veita í þær framkvæmdir. Raufarhöfn eins og ýmsir aðrir staðir tekur á móti loðnu eða bræðslufiski og þar er rekin stór og mikil loðnubræðsla sem veitir mörgum vinnu. Nú er það svo, vegna þess að þróunin hefur verið slík í útgerð og skipin stækka og stækka, að hin stærri skip og flestöll loðnuskip geta ekki siglt inn í þá höfn til að landa. Þess vegna segi ég: Ég fagna öllum þeim tillögum sem koma fram um byggðamál almennt og það fannst mér verst við þessa tillögu að hér er eingöngu tekið á einum landshluta og ég ítreka það sem ég sagði áðan: Ég held að það byggist eingöngu á því að hér vill Vinstri hreyfingin -- grænt framboð rétta Austfirðingum eitthvað í staðinn fyrir það, ef af þeirra ósk verður, að ekki verði úr byggingu álvers á Austurlandi.

Ég segi það rétt í lokin, herra forseti: Ég ætla rétt að vona bæði Íslands alls og Austfirðinga vegna að af álverinu verði með þeim fyrirvörum sem ég hef á því máli.