Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:40:42 (531)

2001-10-15 18:40:42# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er a.m.k. ekki svo komið enn þá að hv. þm. Kristján Möller þurfi að segja þeim sem hér talar frá stöðu mála á Raufarhöfn. Ég er nokkuð vel inni í því hvernig þeir hlutir standa en ég er þakklátur fyrir upplýsingarnar frá hv. þm. sem gerir nú mjög hosur sínar grænar fyrir íbúum um norðaustanvert landið og hefur flutt frá Siglufirði.

Það er heldur ekki þannig komið að hv. þm. Kristjáni Möller hafi verið falið úrskurðarvald um það hvaða tillögur séu umræðum um byggðamál til framdráttar og hvaða tillögur ekki. Er ekki bara best að reynslan skeri úr um það? Ég hef a.m.k. ekki vanið mig á það í umræðum í þinginu að vera að dæma út af borðinu eða úr leik málflutning eða tillöguflutning þingmanna vegna þess að ég telji hann ekki vera á þeim forsendum sem umræðunni séu heppilegastar eða mest til framdráttar og hvar værum við þá stödd í þessum efnum? Það er a.m.k., herra forseti, ekki til þess að lýsa jákvæðum vilja og hugarfari eða að menn vilji taka hlutina með jákvæðum hætti að koma hér upp eins og hv. þm. Kristján Möller gerir og finna tillöguflutningi annarra allt til foráttu en setja síðan á langar ræður um það hversu gott og gáfulegt allt sé sem hann sjálfur leggur til.