Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:43:46 (534)

2001-10-15 18:43:46# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:43]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég verð bara að viðurkenna að ég skildi ekki alveg spurningu hv. 1. þm. Norðurl. e. hvað varðar þessa tillögu og samgöngur landsins. Ég hef verið mjög hlynntur öllum þeim samgöngubótum sem gerðar eru í landinu og hef talið þær mjög mikilvæga leið til þess að styrkja byggð í landinu. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál að árið 2001 skuli sumir landshlutar enn þá búa við niðurgrafna fjallvegi sem illmögulegt er að komast um. Ég er mjög hlynntur þeirri samgönguáætlun sem verið er að vinna að. Ég tel reyndar að setja mætti meiri peninga í ýmsa hluti sem verið er að gera. Ef hv. þm. er að spyrja hvort ég sé t.d. hlynntur jarðgangagerð eða öðru er svarið já við því. Það hef ég verið alla tíð. Frekari uppbygging í samgöngukerfinu á landsbyggðinni er auðvitað til góðs og styrkir ýmsar byggðir. En það má líka snúa spurningunni við, hvort það sé, þrátt fyrir að árið 2001 sé komið, slappleikanum í samgöngumálum að kenna að við sjáum enn þá vegi eins og þá sem eru t.d. á norðausturhorninu eða fjallveginn frá Þórshöfn og yfir eða bara á Vestfjörðum og annars staðar. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál hvernig þeir vegir eru. Þeir hafa ekki verið til að styrkja byggð á þessum stöðum þannig að sannarlega get ég sagt að ég hefði viljað sjá meiri peningum varið til bættra samgangna á mun fleiri stöðum á landsbyggðinni en gert hefur verið nú upp á síðkastið.