Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:57:14 (540)

2001-10-15 18:57:14# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:57]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er búið að fara vítt yfir sviðið í umræðunni sem hefur verið um margt afar áhugaverð. Ég veit satt að segja ekki hvað kemur til með að standa upp úr í þeim efnum, hvort það verður hundasúruhjal hv. þm. Framsfl. eða hvort það verður ofurtrú hæstv. iðnrh. á að álbræðslan skili svo miklum þjóðhagslegum arði að það réttlæti öll þau náttúruspjöll sem eru fylgifiskar virkjanaframkvæmda sem fyrirhuguð álbræðsla á Reyðarfirði krefst.

Það er alveg ljóst, af því að sá hv. þm. sem talaði á undan mér ræddi um jöfnuðinn í virkjanamálum, að þess hefur verið krafist að um allt land ríki slíkur jöfnuður og sú krafa hefur verið mjög lengi á lofti. Þá er virkilega þess virði, herra forseti, að athugað sé hvers konar virkjanir við Íslendingar eigum möguleika á að setja á laggirnar og til hvers við ætlum að nýta þá raforku sem mögulegt er að framleiða í þeim virkjunum.

Af því að hv. þm. Hjálmar Árnason tók þátt í þessari umræðu og talaði í afar lítilsvirðandi tón um þá þáltill. sem hér liggur fyrir þá langar mig að nefna, herra forseti, metnaðarfulla hugmynd sem gæti hentað afskaplega vel á Austfjörðum og þyrfti ekki að kosta þær náttúrufórnir sem fyrirhugað álver á Reyðarfirði óhjákvæmilega hefði í för með sér. Það er vetnisvæðingin, herra forseti.

Nú er nýafstaðið orkuþing í Reykjavík, metnaðarfullt þing sem fjallaði á yfirgripsmikinn og mjög fræðandi hátt um orkumál. Þar komu aldeilis fram hugmyndir frá framsýnu fólki sem gefa okkur fyllilega tilefni til að ætla að Íslendingar geti tekið forustuna í umhverfisvænni orku og orkuframleiðslu og þá er átt við vetni, vindorku og sólarorku.

Getur verið, herra forseti, að með því að hætta við áform um mengandi álbræðslu á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun, sem mundi valda gífurlegum óafturkræfum náttúruspjöllum, þá gætum við með frambærilegri hugmyndaauðgi komið í veg fyrir allt slíkt með því að efla vistvænt vetnissamfélag, setja fjármuni í það og byrja á Austfjörðum? Hver veit nema einhver slík hugmynd lúri hjá Þróunarstofu Austfjarða? Hver veit nema vísindamenn Íslands búi yfir rannsóknarniðurstöðum sem gætu reynst á heimsmælikvarða í baráttunni við sjúkdóma á borð við krabbamein og eyðni? Enginn skyldi gera lítið úr þeim uppgötvunum sem íslenskir læknar hafa gert varðandi virk efni í íslenskum jurtum til lækninga.

[19:00]

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason skyldi hugsa sig betur um næst þegar hann gerir hundasúrur að aulalegum brandara í þingræðu á hinu háa Alþingi því það hefur orðið svo að hundasúrurnar, fjallagrösin og hreindýramosinn sem hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er legið á hálsi að nefna í ræðum, þessar jurtir hafa hvað oftast verið nefndar í ræðum hv. þingmanna Framsfl. í mjög lítilsvirðandi og lágkúrulegum tóni. Það eru ekki öll kurl komin til grafar í þeim efnum, herra forseti, hvað þessi vísindi eiga eftir að færa íslensku þjóðarbúi í framtíðinni umfram það sem möguleg álbræðsla á Reyðarfirði getur nokkurn tíma fært okkur.

Herra forseti. Við skulum ekki tala eins og ekki sé ágreiningur um mögulegan þjóðhagslegan hagnað af álbræðslunni því sá ágreiningur er bullandi og lærðir menn, hagfræðingar sem og aðrir hafa komið fram á sjónarsviðið með mjög öflug rök sem teflt er gegn rökum hæstv. iðnrh. um mögulegan hagnað af álbræðslunni. Og enn hefur Landsvirkjunarmönnum sem reyna að halda því fram að það sé svo arðbært að selja orkuna okkar til stóriðju, ekki tekist að hrekja svo viðunandi sé röksemdafærslu þeirra hagfræðinga sem varað hafa við því að setja öll okkar egg í sömu körfuna. Hvað ætlum við Íslendingar að gera þegar við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, sem við gætum mjög auðveldlega staðið frammi fyrir innan skamms ef áform stjórnvalda sem nú ráða ríkjum verða að veruleika, að þrír fjórðu hlutar allrar orku sem framleidd verður á Íslandi verði seld til stóriðju? Hvar erum við þá stödd varðandi einhæfni atvinnulífs?

Um hvað fjallar sú tillaga sem liggur fyrir hér? Hún fjallar um aukna fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni, ekki einhæfni heldur fjölbreytni. Það vill svo til að Íslendingar hafa verið að reyna að gera sig gildandi á alþjóðavettvangi í umræðu um fjölbreytni. Við fullgiltum samninginn um líffræðilega fjölbreytni og hæstv. umhvrh. og jafnvel hæstv. iðnrh. geta þess hér stoltar í ræðum að við séum aðilar að þeim samningi og er það vel.

Herra forseti. Hver er afstaða þessara hæstv. ráðherra til fjölbreytni í mannlífinu? Hvernig geta hæstv. ráðherrar og hv. þm. Framsfl. sem hafa tjáð sig í þessari umræðu og jafnvel nokkrir hv. þm. Samfylkingarinnar haldið því fram að einhæf risaálbræðsla sem býður upp á einhæf störf sé kostur sem Austfirðingar ættu að taka feginshendi ef þeim byðist fjölbreytni á borð við þá sem þáltill. sem hér um ræðir fjallar um. Staðreyndin er sú að Austfirðingum hefur ekki verið rétt nein önnur hugmynd og af hugmyndum þeim sem eru í vexti í lággróðrinum meðal Austfirðinga, af þeim hugmyndum sem þar krauma, hefur engin hlotið náð fyrir augum hæstv. ríkisstjórnar. Þróunarstofa Austfjarða hefur ekki fengið það fjármagn sem hún hefur þó óskað eftir í þær hugmyndir sem krauma í grassverðinum.

Herra forseti. Við skulum heldur ekki gleyma því að þeir Austfirðingar finnast og e.t.v. fleiri en nokkurn grunar sem segja með hnútinn í maganum: Ég ætla bara að vona að þeir fari að koma með þetta álver hingað því að þá get ég kannski selt húsið mitt og flutt héðan burt. Þeir Austfirðingar eru til sem hugsa svona og hafa svona tilfinningar. Mér finnst hv. þm. Framsfl. sem talað hafa í þessari umræðu vera að gera lítið úr tilfinningum þeirra.

Herra forseti. Þessi byggðatillaga, þessi einnar hugmyndar byggðastefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er ekki til þess fallin að auka fjölbreytni mannlífs, hvorki á Austfjörðum né annars staðar í landinu. Fjölbreytni mannlífsins fæst með því að efla og styðja við bakið á þeim hugmyndum sem eru til staðar í grasrót hvers samfélags fyrir sig.