Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:05:33 (541)

2001-10-15 19:05:33# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:05]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Það kvað í raun kannski við örlítið annan tón í ræðu hv. þm. áðan því að hv. þm. var að benda á ágætismál --- það er alveg hárrétt --- varðandi vetnissamfélag, vindorku og sólarorku og það er einmitt verið að vinna að þessum málum. Það er nákvæmlega verið að vinna að þessum málum. Hv. þm. talaði með ákveðinni lítilsvirðingu um ágætan félaga okkar sem hefur beitt sér í þessum málum, beitt sér mjög í vetnismálum. Því miður er hann ekki lengur í þingsalnum, hv. þm. Hjálmar Árnason.

Ég er mjög hlynntur fjölbreyttu atvinnulífi á Íslandi. Ég kem frá byggðarlagi þangað sem stórt atvinnufyrirtæki flutti fyrir eins og tíu árum síðan og ég veit hve mikil margfeldisáhrif það hefur haft. Sumir segja í dag að þetta sé býsna einhæfur atvinnuvegur. En þetta gjörbreytti samfélaginu. Þetta gjörbreytti sýslunni. Ég er enginn sérstakur áhugamaður um byggingu álvera. En eftir að ég hafði verið á Austurlandi og eftir að ég hafði hitt sveitarstjórnarmenn á Austurlandi þá varð ég alveg sannfærður um að ég væri tilbúinn að berjast fyrir því að það kæmi álver á Austurlandi. Það hefur einmitt komið fram í þessari umræðu að um það bil 80% íbúa Austurlands vilja gjarnan uppbyggingu álvers á Austurlandi. Einungis 20% eru á móti því.

Í sjálfu sér, eins og ég segi, eru þessar hugmyndir dálítið flotkenndar. Að sjálfsögðu er í góðu lagi að vera með tillögur sem þessa. Ég hef ekkert á móti því. En eins og kom fram í fyrra andsvari mínu við (Gripið fram í.) hv. 1. flm. þessarar tillögu þá gekk mér ansi illa að skilja út á hvað hún gekk. Það voru alla vega nokkur dæmi hér sem eru áþreifanleg og ég er þeim sammála.