Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:07:47 (542)

2001-10-15 19:07:47# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:07]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt ef hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason er til í að endurskoða afstöðu sína til þessarar tillögu því að ekki kvað við jákvæðan tón í fyrri ræðu hv. þm. áðan. Ég ber það af mér að ég hafi talað af nokkurri lítilsvirðingu um hv. þm. Hjálmar Árnason hér. Það ber ég af mér. Ég var einungis að geta þess áðan að metnaðarfullar hugmyndir okkar allra og þar með taldar metnaðarfullar hugmyndir hv. þm. Hjálmars Árnasonar um vetnissamfélag geta svo auðveldlega náð fótfestu og orðið að veruleika á Austurlandi. Þær hugmyndir þurfa ekkert endilega að blómstra í Reykjavík. Á meðan hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason dekrar við það að við getum sinnt vetnissamfélaginu hér sunnan heiða þá ætlar hann að reisa mengandi álbræðslu á Austfjörðum og heldur því svo fram í andsvari að 80% Austfirðinga séu samþykkir því að setja þessa álbræðslu þarna niður meðan hann veit að Austfirðingum hefur ekkert annað verið rétt í byggðamálum.

Hvað er langt síðan farið var að tala um að bæta samgöngur á Austfjörðum til þess að efla atvinnu þar? Hvað er langt síðan átti að gera jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og hvað hefur hæstv. ríkisstjórn gert í þeim málum, göngin sem eiga að kosta 4,5 milljarða kr.? Ekki eru þau komin enn. Og hvað er Landsvirkjun búin að eyða miklu í umhverfismat og rannsóknir vegna Fljótsdalsvirkjunar og mögulegrar Kárahnjúkavirkjunar? Sennilega öðru eins, kannski 4,5 milljörðum. Það hefði haft úrslitaþýðingu fyrir atvinnumál Austfirðinga ef peningum af þessum stærðargráðum hefði verið varið í að bæta samgöngur á Austfjörðum en ekki í óarðbærar hugmyndir sem njóta ekki trausts um álbræðslu á Reyðarfirði.