Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:11:02 (544)

2001-10-15 19:11:02# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:11]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi frasi um eitthvað annað er farinn að hljóma ansi hjákátlega og hann nota eflaust allir þingmenn. Ég hef örugglega notað þennan frasa og mér hefur verið legið á hálsi fyrir að nota hann. Nú er hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason farinn að nota ,,eitthvað annað`` um stóriðjuna.

Varðandi þetta eitthvað annað, þá höfum við verið að tala um það í þau rúm tvö ár sem ég hef setið á þingi að það þurfi að skoða byggðavandann og atvinnumál landsbyggðarinnar upp á nýtt og ein hugmynd um eitt álver á Reyðarfirði leysir ekki byggðavanda eða atvinnuvanda landsbyggðarinnar. Á þeim níu mánuðum sem liðnir eru af þessu ári hafa 1.300 manns flutt af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þessar vísbendingar halda áfram að hrópa hærra á okkur og á meðan þetta er að gerast gerir hæstv. ríkisstjórn ekkert annað en að einblína á stóriðjuna á Reyðarfirði sem enginn veit hvort kemur. Á meðan hæstv. ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. horfir ekki á þessa staðreynd heldur einblínir á stóriðjuna er ekki hægt að gera neitt annað en einblína á stóriðjuna.

Ég ætla að enda þetta andsvar mitt, herra forseti, á tilvitnun í ungan rithöfund sem skrifaði í Morgunblaðið um daginn. Hann var að fjalla um stóriðjumálin og ástandið á Austfjörðum. Hann sagði eitthvað á þá leið að þegar samanlögð fallvötn Íslands væru öll farin að knýja álverksmiðjur þá yrðu þeir sem ekki störfuðu í álverksmiðjum að gera eitthvað annað. Svo sagði þessi ungi rithöfundur, með leyfi forseta:

,,... og sköpunarkraftur þeirra er Íslands eina von.``

Sköpunarkraftur þeirra sem ekki trúa á stóriðjuna heldur leyfa sér að trúa á eitthvað annað er Íslands eina von segir rithöfundurinn Andri Snær Magnason.