Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:26:11 (549)

2001-10-15 19:26:11# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:26]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er afar sérkennileg nálgun sem hv. þm. hefur á málinu með því að ásaka þann sem hér stendur um að mynda sér skoðanir eftir skoðanakönnunum. Það er víðs fjarri og það ætti hv. þm. að vita að ég hef ætíð staðið með sannfæringu minni, bæði í þessum málum sem öðrum.

Hins vegar er ljóst og ég fór að nefna þessar skoðanakannanir hérna vegna þess að það voru nokkrir hv. þm. Vinstri grænna sem fóru að ræða um að ákveðin prósentutala Austfirðinga væri ákveðinnar skoðunar og það virtist vera réttlæting fyrir því að þeir hefðu ákveðna skoðun. Það er því afar sérkennilegt ef hv. þm., sem er í hópi hv. þm. sem þannig töluðu, ætlar að fara að skamma mig fyrir þá. Ég held að hv. þm. ætti frekar að ræða þetta mál í þingflokki sínum.