Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:48:39 (559)

2001-10-15 19:48:39# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÖHJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:48]

Örlygur Hnefill Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 4. þm. Vestf., Guðjóni A. Kristjánssyni, um það sem hann er að segja hér. Hér hafa verið rædd byggðamál og það er þarft.

Auðvitað má vekja athygli á því að á þessari stundu eru einungis þingmenn stjórnarandstöðunnar í þinginu að ræða þau mál en þeir sem bera höfuðábyrgð á byggðamálum undanfarinna ára eru ekki hér.

Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. um sérstöðu byggðanna. Auðvitað á að samspila, segi ég, fiskveiðistjórnarkerfið og áætlanir í byggðamálum en það er aldrei gert. Þetta eru séraðgerðir á báðum stöðum. Auðvitað er hægt að styrkja byggðina gríðarlega með því að hún fái að njóta sérstöðu sinnar eins og hann bendir réttilega á varðandi Vestfirði, og þekkja fáir betur til hversu miklu máli það skiptir.

Menn hafa áður rætt um að nýta sérstöðu byggða. Ég man eftir því og þykist vita að hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, minnist þess líka að talað var um að efla, svo við ræðum landbúnaðarmál, sauðfjárbúskap sérstaklega á Hornströndum og í Þistilfirði af því að þau svæði væru betur en önnur til þess búskapar fallin að bændur gætu þar rekið fé fram um heiðar. Auðvitað á að horfa til slíkrar sérstöðu og það þarf að gera miklu meira af því en gert er í byggðamálum.

Ég ítreka að það á að stýra fiskveiðistjórnarkerfinu sérstaklega með tilliti til byggða og þess eru dæmi að þessi litli byggðakvóti, 1.500 tonn, hafi hreint og beint reist úr rústum staði þar sem menn máttu vart lengur róa til fiskjar og voru búnir að vera undir kastljósi fjölmiðlanna svo mánuðum og jafnvel árum skipti.