Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:52:16 (561)

2001-10-15 19:52:16# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:52]

Flm. (Þuríður Backman):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið í dag um þáltill. okkar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um sérstakt átak til að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni.

Ég vil taka það alveg skýrt fram að þessi tillaga er flutt í fullri einlægni og vilja til þess að hafa áhrif á jákvæða þróun byggða. Þetta er ekki sýndarmennskutillaga til þess að sýna eitthvað. Við viljum að farið verði í sérstakt átak um landið þar sem byggðin er veik. Við viljum að skilgreind svæðisbundin byggðastefna verði tekin upp því að, eins og hér hefur komið fram í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, hafa svæðin, mismunandi byggðasvæði þó að jafnveik séu, öll sína sérstöðu og mismunandi möguleika til þess að styrkja byggð. Við eigum að nýta okkur þessa sérstöðu.

Eins og tillagan ber með sér er hér ekki listi af skilgreindum afmörkuðum verkefnum því að við viljum ekki fara út í slíkan málflutning. Við viljum að þessum fjármunum, sem menn geta deilt um hvort eru litlir eða miklir --- ég veit bara að það munar um 400 millj. inn í sérstakt átaksverkefni fyrir Austurland, fyrir það svæði, árlega næstu sex árin til þess að byggja undir þau fyrirtæki sem eiga í erfiðleikum í dag --- verði varið til þess að koma þeim hugmyndum á framfæri sem borðleggjandi eru rekstrarhafar og gætu skapað drjúga atvinnu á svæðinu.

Við erum ekki að gera lítið úr Byggðastofnun með þessari tillögu. Byggðastofnun er fjárvana stofnun eins og margar aðrar opinberar stofnanir og þyrfti að hafa meira afl til þess að styrkja byggð, a.m.k. hefur Byggðastofnun ekki haft nokkra möguleika til þess að vinna gegn þeim pólitísku öflum sem eru annars ráðandi í þjóðfélagi okkar og brjóta niður byggð í landinu.

Við höfum nefnt hér nokkur svið sem væri afar brýnt að fara í. Eitt þeirra er markaðssetning á fjórðungnum og það á ekki að gera lítið úr því. Til hvers er verið að berjast fyrir alþjóðlegum flugvelli, reglubundnu millilandaflugi og farþegaflutningum með ferjunni á milli landa, ef ekki er möguleiki á að fara í markaðskynningu, ef ekki er möguleiki á að taka á móti þeim farþegum sem við erum að vona að komi? Það vantar fjármagn í þetta stóra verkefni. Hvers má sín einn ferðamálafulltrúi sem starfar að markaðssetningu fyrir allt Austurland? Hvernig getur hann hrundið af stað átaksverkefni ásamt því að reka tjaldsvæði og almenna ferðaþjónustu í einu horni? Hvernig á fjárvana atvinnugrein eins og ferðaþjónustan að fara í það verkefni að markaðssetja Austurland til að taka á móti ferðamönnum og kyrrsetja þá í þeirri merkingu að þeir eyði frítíma sínum á Austurlandi en fari ekki beint í Gullfoss/Geysis-hringinn? Það á ekki að vera samasemmerki á milli þess að efla menntun, að efla nýherjabúðir, að efla þróunarstofur, að efla þróunarstarf á Austurlandi, og álvers. Tækifærin eiga ekki að bíða eftir álverinu, að þá eigi allt að fara í gang og þá skapist möguleiki til þess að koma upp einhverri starfsemi. Við eigum að fara í þetta núna vegna þess að þetta vantar núna.

Öll þau verkefni sem við höfum hér í huga eru sprottin frá heimamönnum sjálfum. Þeir sem eiga eftir að koma inn í þetta verkefni þegar og ef af því verður og telja sig geta nýtt einhvern hluta þessa fjármagns munu sækja um það til Þróunarfélagsins. Það mun síðan meta hvort verkefnið sé af þeim toga að rétt sé að þróa það áfram. Við eigum ekki að bíða eftir álveri til að koma þessu á. Fjórðungurinn líður fyrir það að hafa ekki meiri og betri stuðning við háskólanám. Að vísu erum við með, og ég geri ekki lítið úr því, fjarnám á háskólastigi en það þarf miklu meira. Við erum með atvinnugreinar eins og skógræktina sem sannarlega þarf á stuðningi að halda inni á svæðinu. Við erum með afurðir úr skógræktinni sem skógurinn skapar. Við getum nefnt sveppi --- er enginn framsóknarmaður hér inni, herra forseti? Má ég biðja hæstv. forseta um að bæta villisveppum á listann yfir þörunga, fjallagrös og hundasúrur? Þá hef ég komið því til skila.

(Forseti (ÍGP): Hæstvirtur forseti mun verða við þessari ósk.)

Já, bæta við villisveppum. Það eru hugmyndir um að tína villisveppi og koma þeim beint á markað. Það er fjölmörg slík verkefni sem bíða. Ég ætla ekki að tíunda það neitt frekar en hv. þm. Halldór Blöndal bað um lista yfir einhver ákveðin verkefni eins og ekki væri hægt að fara í svona átaksverkefni án þess að vera þegar tilbúinn með einhvern lista. Hann þarf ekki að liggja fyrir. Við ætlum ekkert að búa hann til. Við ætlum að skapa þeim vettvang sem hafa vilja og getu til að fara í framleiðslu, og eins ætlum við að styrkja þau fyrirtæki sem þegar eru að bjóða einhverja þjónustu. Við ætlum að styrkja þessi fyrirtæki en við ætlum ekki að segja hvaða fyrirtæki þetta eru þannig að listinn liggur ekki fyrir.

Hæstv. forseti. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum aðra sýn til uppbyggingar byggða en að horfa til stóriðju sem innleggs í byggðamál. Stóriðja út af fyrir sig er líka mjög mismunandi. Við höfum talað um stóriðju sem hefði 150 manns í vinnu. Það er stóriðja eða verksmiðja sem mundi hugsanlega passa miklu betur inn í austfirskt samfélag heldur en sú 600 manna stóriðja sem verið er að undirbúa núna. Við verðum að horfa á þetta í samhengi þegar við erum að tala um stærðir og stóriðju. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum ekki á móti því að virkja fallvötnin en okkur er bara ekki sama hvernig það er gert.

Kárahnjúkavirkjun eins og hún er lögð upp í dag er að okkar mati óásættanlegt rask á náttúrunni og það eru fleiri sem meta það svo. Skipulagsstjóri og Skipulagsstofnun hefur metið það svo. Þetta stóra álver verður ekki byggt inn í samfélagið nema virkjað verði við Kárahnjúka. Við höfum aðra sýn, bæði hvað varðar uppbyggingu á atvinnu og hvað varðar nýtingu á fallvötnum. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vitnaði til orkuþings og ég hvet alla, sérstaklega hv. þm. Framsfl., til að kynna sér þau gögn sem þar voru lögð fram og þá fyrirlestra sem þar voru fluttir um þá möguleika sem við höfum á nýtingu fallvatnanna því að þeir eru miklu meiri og fjölbreyttari en að binda þá við þessa einlitu þráhyggju um að hafa risastór uppistöðulón til þess að fóðra risaverksmiðjur. Við getum nýtt fallvötnin á Austurlandi og það eigum við auðvitað að gera en með öðrum hætti en þarna er lagt til og þá þannig að ekki verði svona mikil náttúruröskun af.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum, eins og hér kemur fram og þessi þáltill. ber með sér, fjölbreytni í staðinn fyrir einhæfni og ég tek undir orð hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar þar sem hann dró sérstaklega fram áðan, og ég hafði ekki gert fyrr í máli mínu, að fiskveiðistefnan eins og hún hefur verið rekin er eyðibýlastefna. Það þýðir lítið að vera með sérstakt átak í byggðamálum ef ekki verður breytt um stefnu í sjávarútvegsmálum, ef ekki verður breytt um stefnu varðandi landbúnaðinn og ef ekki verður horfið frá þessari markaðshyggju og það verði ætíð og alltaf litið á hagkvæmni stærðarinnar sama hvaða byggðarlög eiga í hlut. Ef stjórnvaldsaðgerðir verða allar á sama veg og þær hafa verið þýðir lítið að fara í einstakt átaksverkefni eða sinna hinum dreifðu byggðum ef á sama tíma er unnið að því að leggja þær af.

Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði í upphafi máls míns, herra forseti, að þessi tillaga á að byggja á almennum aðgerðum, aðgerðum sem eru til jafnaðar fyrir kjör fólksins í landinu og þá gætum við sett upp langan lista. Við gætum nefnt þungaskattinn, menntunina, virðisaukaskattinn, aðgengi að opinberri þjónustu o.s.frv. Við erum að tala um að það verði að fara í þessar almennu aðgerðir jafnframt því að fara í sérstakt átaksverkefni. Þetta eru róttækar aðgerðir þó að þær taki til lengri tíma. Þetta er engin stóriðja og ég get ekki séð að framkvæmdir jafnstórar og stóriðjan á Austurlandi er þurfi endilega að vera til farsældar fyrir þjóðina.