Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 15:01:38 (577)

2001-10-16 15:01:38# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt um það frv. til laga sem þingflokkur Samfylkingarinnar hefur flutt og er nú til umræðu í annað skipti á hinu háa Alþingi. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka mikinn þátt í þeirri umræðu. Í fyrra skiptið sem þetta var rætt urðu orð hæstv. sjútvrh. tilefni þess að ég vil koma og leggja aðeins orð í belg. Þá sagði hæstv. sjútvrh., með leyfi forseta:

,,Hinar veiku byggðir á landsbyggðinni þurfa á öðru að halda en að lífsbjörgin sé rifin frá þeim.``

Ég vona að þetta sé nokkurn veginn orðrétt eftir haft. Það er sannarlega rétt. En spyrja má að því hvort það hafi ekki verið einmitt núverandi kvótakerfi, núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, sem hafi sannarlega dregið lífsbjörgina frá mörgum litlum sveitarfélögum á landsbyggðinni. En svo er að þegar eitt er dregið burtu þá bætist það við hjá öðrum og það er sannarlega svo að ýmis önnur sveitarfélög hafa fengið til sín þær aflaheimildir.

Herra forseti. Ein af verstu hliðunum á þessu máli er kannski að eftir að hið frjálsa framsal var tekið upp 1990 geta útgerðaraðilar tekið sig til og selt í burtu allan kvótann, þess vegna að nóttu til, og eftir stendur eitt byggðarlag lagt í rúst, ef svo má að orði komast. Og eignir fólksins sem þar býr --- það hefur e.t.v. eytt ævinni í að byggja sér húsnæði og koma sér fyrir --- eru gerðar verðlausar í sömu andránni, um leið og aðrir fara með miklar fúlgur fjár út úr sölu á kvótanum.

Ég ætla ekki endilega að nefna nein sérstök byggðarlög, en menn geta spurt sig og menn geta horft til hinna ýmsu staða á landsbyggðinni. Hvað hefði t.d. gerst á Skagaströnd ef áform utanaðkomandi aðila um að yfirtaka Skagstrending hefðu orðið að veruleika? Hvað gerðist á Ísafirði þegar Samherji keypti Guðbjörgina? Þetta gula skip átti að landa áfram á Ísafirði eins og ekkert væri. En skipið sigldi í burtu og kvótinn með.

Um þetta hefur verið mikið rætt og ritað. Í skýrslu sem Byggðastofnun hefur tekið saman um sjávarútveg og byggðaþróun á Íslandi kemur margt athyglisvert fram. Ég vil m.a. vitna til samantektar á bls. 2, með leyfi forseta:

,,Markmið laga um stjórn fiskveiða er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``

Og byggð í landinu! Hefur það verið gert? Jú, sannarlega á sumum stöðum. En að sama skapi hefur dvínað mjög og dalað á öðrum stöðum sem tekið hefur verið frá.

Ég held að menn þurfi ekkert að velkjast í vafa um að miklar framfarir og hagkvæmni hafi orðið í nýtingu og að samþjöppun hefur átt sér stað í greininni. Aftur á móti er það alveg deginum ljósara að lögin hafa ekki styrkt búsetu í dreifðum byggðum landsins á fjölmörgum stöðum sem við þurfum ekki endilega að telja hér upp. Nægir í þessu sambandi að tala t.d. um Vestfirði þar sem úthlutað aflamark í þorski til skipa með heimahöfn á Vestfjörðum náði því að vera 23.295 tonn eins og segir í þessari skýrslu og til samanburðar var úthlutunin á fiskveiðiárinu 2000--2001 12.957 tonn. Þannig hafa verið fluttar frá landshlutanum veiðiheimildir í þorski sem nema tæpum 10.400 tonnum. Skal engan undra að það komi við. Þarna hafa með öðrum orðum verið fluttar í burtu veiðiheimildir í þorski sem verðleggja má á 9--10 milljarða kr.

Herra forseti. Þetta er ein versta hliðin á fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Hitt atriðið er að sjálfsögðu hið frjálsa framsal, þ.e. að útgerðarmenn sem hafa fengið úthlutað veiðiheimildum geta tekið sig til og selt þær á einu bretti og farið út með fúlgur fjár eins og mörg dæmi eru um.

Leiga á kvóta og kvótabrask er annar þáttur. Ég vil nefna enn annað atriði, þó kannski eigi ekki að taka einstök dæmi til þess að dæma heilt kerfi. Í svari hæstv. sjútvrh. við fyrirspurn minni á síðasta þingi um úthlutað loðnumark, aflamark og annað, kemur nokkuð athyglisvert fram. Þar kemur fram að tvö síðustu fiskveiðiár hefur það verið mikið stundað af eigendum smábáta að kaupa loðnu, jafnvel þegar hún er dauð, búin að hrygna, og færa á viðkomandi smábát. Loðnan verður að sjálfsögðu ekki veidd á handfæri af þessum smábát. Jafnvel er hún dauð. En þá er hægt að halda áfram og leigja frá sér þær aflaheimildir í þorski og öðru sem menn hafa á þessum viðkomandi smábát.

Finnst hæstv. sjútvrh. þetta hægt? Á að vera hægt að gera þetta svona, þ.e. að menn jafnvel versli með dauða loðnu fyrir þorsk til þess að geta haldið áfram í þessu braski, að leigja frá sér heimildir? Þeir róa ekki. Aðrir nýta það að sjálfsögðu en eru í erfiðleikum með að láta enda ná saman eða gera það nánast ekki heldur.

Herra forseti. Ég sagði það hér í umræðum um skattamál og umræðum um Byggðamál að á Íslandi þarf að taka upp svæðisbundna byggðastefnu. Sú svæðisbundna byggðastefna þarf m.a. að koma inn í fiskveiðistjórnarkerfið vegna þess að ef menn komast að þeirri niðurstöðu að Vestfjörðum verði best haldið í byggð og fái að blómstra og sækja fram á ný með smábátum þá á að taka það inn í fiskveiðistjórnarkerfið og gera það þannig. Það á ekki eingöngu við Vestfirði. Við höfum heyrt ályktanir frá ýmisum byggðarlögum jafnt fyrir austan, norðan og annars staðar. Þetta þarf að leiða inn í það kerfi.

Annað mjög slæmt sem ég gleymdi að nefna áðan er að þeir sem hafa fengið úthlutað aflaheimildum en selja þær frá sér fara í mjög mörgum tilfellum með peninga sína úr landi, nýta sér heimildir til þess að fara með fé úr landi. Þeir nýta sér einnig alls konar heimildir til þess að þeir þurfi ekki að borga skatta af þessum tekjum. Þetta er að mínu mati stærsti ljóðurinn á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Það eru líka til sögur um að peningar sem fást fyrir sölu aflaheimilda í sjávarútvegi séu notaðir til þess að koma mönnum inn í aðrar starfsgreinar í þjóðfélaginu. Það er spurning hvort það skekki ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja. Það er sennilega töluvert öðruvísi en var á sínum tíma að geta selt kvóta landsmanna, fengið fyrir það fúlgur fjár og keypt tvær, þrjár, tískuvöruverslanir í Kringlunni eða tvö, þrjú verslunarpláss þar. Ég hygg að það skekki dálítið samkeppnisstöðu fyrirtækja á þessu sviði í Kringlunni, að maður tali nú ekki um ef það væri uppi í Smáralind núna. Það skyldi þó ekki vera að eitthvað af þeim peningum sem eru að koma inn og hafa komið inn undanfarið fyrir sölu aflaheimilda séu að fara inn í þennan verslunarrekstur og þessar verslunarmiðstöðvar sem verið er að byggja á höfuðborgarsvæðinu?

Hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson ræddi um vanda sem er lýst í þessari skýrslu. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um það. Nærtækt er að taka dæmi um hið smáa en góða samfélag í Hrísey. Þar hefur íbúum fækkað um 89 eins og talað er um í skýrslunni. En þar sér maður línuritið alveg í takt við aflaheimildir sem fara í burtu. Til þess að Hrísey fái áfram að blómstra sem byggð þarf ekki mikið að gera þar í byggðamálum. Það er í raun sáraeinfalt sem þarf að gera. Þar eru aðilar sem vilja hefja útgerð. Byggðakvóti gæti hjálpað þar til eins og hann hjálpaði til á Þingeyri og ýmislegt fleira væri þar hægt að gera. En kerfið má hvergi nota í jákvæðum skilningi til þess að breyta vörn í sókn, ef svo má að orði komast, í hinum fjölmörgu byggðarlögum sem hafa farið mjög halloka út af fiskveiðistjórnarkerfinu, að maður tali nú ekki um eftir árið 1990 þegar frjálsa framsalið var leyft.

Herra forseti. Þessi sala á aflaheimildum út úr greininni hefur líka orðið til þess að stórauka skuldir sjávarútvegs. Ég blæs á það að öll skuldasöfnun í sjávarútvegi sé eingöngu vegna nýfjárfestinga. Það er ekki rétt. Stór hluti af henni er vegna kvótakaupa. Frá árinu 1995--2000 hækkuðu skuldir sjávarútvegsfyrirtækja um tæplega 61%. Á þessum fimm árum hækkuðu skuldirnar úr 108 milljörðum í 173 milljarða. Veit nokkur hverjar skuldir sjávarútvegsins eru í dag? Sennilega þarf að reikna það daglega miðað við gengiþróun. Mér kæmi ekki á óvart þó það væru rúmar 200 milljónir. (GE: Heldurðu að það sé ekki 300 milljarðar?) Ef ég hef verið að nota hér orðið milljónir þá er það náttúrlega rangt. Það eru náttúrlega milljarðar til að fyrirbyggja misskilning. (Gripið fram í: Eru það ekki yfir 300 milljarðar?)

Herra forseti. Þegar þetta mál var síðast á dagskrá var ákaflega athyglisvert að fylgjast með ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, varaformanns fjárln., stærstu nefndar þingsins, fulltrúa Sjálfstfl. í því embætti, sem ég segi að hafi haldið hér líkræðu, eina þá mestu sem ég hef hlustað á á Alþingi um sjávarútvegsstefnu stjórnvalda. Ég get ekki kallað hana annað en líkræðu þegar rætt var um botnfiskveiðarnar. Hann sagði eitthvað á þá leið að kerfið væri ónýtt. Hann nefndi það líka að sjávarútvegsstefnan væri að deyða hin ýmsu sjávarþorp út um allt land. Þetta er hárrétt. Ég spurði hann í stuttu andsvari hvort hann mundi flytja sömu eldræðuna á landsfundi Sjálfstfl.? Nú veit ég ekki hvort hann gerði það, hvorki í nefndinni né á fundinum. Ég veit það ekki. Ég fylgdist ekki svo grannt með því, en ég vona að svo hafi verið.

En ég vil aðeins segja að lokum að þó svo að landsfundur Sjálfstfl. hafi komist að einni niðurstöðu um hvað sá flokkur vill í sjávarútvegsmálum þá er það ekki það sama og að verið sé að ákveða sjávarútvegsstefnu Íslendinga. Sem betur fer situr Alþingi enn þá skörinni hærra en landsfundur Sjálfstfl. þó ég geti vel ímyndað mér að forustumenn Sjálfstfl. vilji helst hafa það hinsegin, þ.e. að ákvarðanir landsfundar Sjálfstfl. eigi svo bara að stimpla á Alþingi.

Þetta á, eins og hefur komið fram, eftir að fara í gegnum ríkisstjórn. Hæstv. sjútvrh. á eftir að vinna úr málinu. Þetta á eftir að fara í gegnum þingflokkana og þetta á eftir að koma til þings. Ég spái því að miklar og harðar umræður verði um það frv. sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn í þessum málum.

Ég hlustaði líka um daginn á starfandi formann þingflokks Framsfl., hins stjórnarflokksins, hvernig hann talaði um smábátana og annað í þessum málum þannig að, herra forseti, síður en svo er komin sátt meðal stjórnarliða og það er ekki komin sátt í landinu um sjávarútvegsstefnu til frambúðar. Svo er ekki. Það verður ekki gert með ályktun frá endurskoðunarnefnd sem er mynduð af tveimur þingmönnum Sjálfstfl., einum fulltrúa iðnrh. og síðan prófessor úr háskólanum sem var skipaður af hæstv. sjútvrh. Þetta er hins vegar lítið skref í rétta átt og kannski er það merkilegasta í þeirri samþykkt að Sjálfstfl. var að fallast á veiðileyfagjald eða auðlindagjald, eða hvað við eigum að kalla það. Og íslenskir útvegsmenn hafa fallist á að greiða hóflegt veiðileyfagjald ef það yrði til sátta.

Eins og ég segi þá er þetta skref í rétta átt. Ég sem fyrrverandi alþýðuflokksmaður hlustaði á það ungur maður þegar ég var að byrja að fylgjast með pólitík ... (Gripið fram í.) núverandi jafnaðarmaður, já. Ég fylgdist með því þegar Alþfl. vildi leggja á auðlindagjald alla sína tíð. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og margir hafa selt sig út úr greininni. Menn greinir þó á um hvort það eru 80% eða 75% eða hvað. Ég hef ekki þær tölur. En margir eru sannarlega búnir að selja sig út úr greininni, fara með fullar hendur fjár og mikla peninga út úr greininni í aðrar greinar eins og ég ræddi um áðan og því miður hefur ekki tekist nægjanlega vel ná á í skottið á þeim peningum sem þar flæða á milli sem samfélagið að sjálfsögðu hefði átt að fá miklu meiri skatta af en það í raun og veru hefur fengið.

Það sem ég vil enda á að segja, herra forseti, er að lítið hænufet hefur verið stigið í átt til þess að reyna að ná samstöðu meðal Íslendinga um sjávarútvegsstefnu sem er ákaflega brýnt að gera. Þess vegna voru það mikil vonbrigði að svokölluð endurskoðunarnefnd skyldi ekki hafa komist að niðurstöðu og að það hafi ekki orðið til þess að ná frekari samstöðu um þetta mál vegna þess að atvinnugreinin sem slík --- og það er kannski það mikilvægasta --- að atvinnugreinin sem slík þarf að hafa löggjöf í kringum þetta sem gerir það að verkum að menn vita hvaða rekstrarskilyrði og hvaða form þeir eigi að búa við næstu 10--30 ár. Það er ákaflega mikilvægt fyrir greinina en því miður virðist mér að þær tillögur sem hér hafa komið fram verði ekki til þess að draga úr deilum í landinu um sjávarútvegsstefnuna meðal almennings. Almenningi er misboðið þegar hinir ýmsu aðilar selja sig út úr greininni. Fjölmiðlar segja frá hvað menn fá fyrir að selja fiskinn sem syndir einhvers staðar í sjónum og þá er almenningi misboðið hvernig þetta er og því hefur þetta ekki orðið til sátta. En ég segi það í lokin, herra forseti, að Sjálfstfl. steig hænufet í rétta átt og hefur viðurkennt hóflegt veiðileyfagjald eða auðlindagjald og það er kannski það merkilegasta við landsfund Sjálfstfl.