Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 15:35:50 (583)

2001-10-16 15:35:50# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., SI
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Ef frv. sem hér um ræðir yrði að lögum, halda menn þá virkilega að það leiddi til þess að tryggja atvinnu á landsbyggðinni og styrkja byggð þar? Þar sem 92% kvótans eru nú á landsbyggðinni, þ.e. utan Reykjavíkur, hversu stór biti væri það þá fyrir landsbyggðina að kyngja ef taka ætti af þeim aflaheimildir í gegnum fyrningarleið, þ.e. gera þær upptækar á tíu árum eins og frv. gerir ráð fyrir og gera útgerðaraðilum að kaupa þær til sín aftur á uppboði þar sem seld eru hæstbjóðanda hverju sinni þau réttindi að fá að veiða í sjónum? Þegar 5% aflaheimildanna eru metin á 8 milljarða, halda menn þá virkilega að þetta geri t.d. trillukörlum úti á landi auðveldar fyrir eða að útgerðir nái að hagræða líkt og verið er að hvetja til? Ég skil ekki hvernig hægt er að setja samasemmerki á milli byggðaþróunar og fyrningarleiðar.

Íbúaþróun hefur því miður verið landsbyggðinni afskaplega óhagstæð á undanförnum árum þar sem fylgni hefur mælst á milli þess að kvóti fari frá byggðarlögum og íbúafækkunar. Að sama skapi hefur ekki mælst fylgni í hina áttina, þ.e. þótt kvóti komi í byggðarlög þá virðist fólksfjölgun ekki fylgja þar á eftir.

Hv. 3. þm. Vesturl., Jóhann Ársælsson, gerði að umræðuefni í ræðu sinni áðan samanburð á því sem úthlutað hefði verið af aflaheimildum árið 1994 og nú í ár. Hæstv. sjútvrh. hefur hingað til ákvarðað heildarafla einstakra fisktegunda að fengnum tillögum vísindamanna. Það er nákvæmlega það sem farið er fram á í þessu frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Heildarafli einstakra fisktegunda verður áfram ákveðinn árlega samkvæmt tillögum vísindamanna og fiskveiðiárið verður óbreytt.``

Um leið og hv. 3. þm. Vesturl. Jóhann Ársælsson gagnrýnir það sem haft er að leiðarljósi við úthlutun á heildarafla einstakra fisktegunda og að það hafi ekki gefið góða raun, þá er það sama lagt til í þessu frv.

Við verðum að gera okkur grein fyrir að tillögur vísindamanna eru oft og tíðum byggðar á gegnsæjum rökum. Það er erfitt að gera sér grein fyrir stofnstærðum og fyrirsjáanlegum áhrifavöldum þar. Þrátt fyrir að afskaplega faglegum vinnubrögðum sé beitt af Hafrannsóknastofnun og að við höfum góðum fiskifræðingum á að skipa þá geta þeir ekki kveðið upp með staðreyndir heldur líkindi. Ástand fiskstofna fer alls ekki eingöngu eftir veiðum, samanber hrun innfjarðarrækjustofnsins vegna breyttra aðstæðna í sjónum.

Ég sé ekki hvernig það getur komið landsbyggðinni til hjálpar, treyst byggð í landinu og tryggt atvinnu þar, að ríkið hrifsi til sín aflaheimildirnar og selji þær hæstbjóðanda hverju sinni.