Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 16:15:58 (591)

2001-10-16 16:15:58# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[16:15]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Margt hefur verið sagt í þessari umræðu. M.a. hefur sú setning verið látin falla að samfylkingarmenn vilji að ríkið hrifsi til sín aflaheimildir. Á það skal minnt að í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða er tekið fram að íslenska þjóðin sé eigandi nytjastofnanna á Íslandsmiðum. Þess vegna er skrýtið þegar svona er talað.

Einnig er sagt í þeirri grein að þó að menn hafi veiðirétt sé það ekki óafturkræfur réttur. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur verið margbent á að þeir sem leigja til sín kvóta eða jafnvel kaupa kvóta geta ekkert verið vissir um að þeir eigi hann til eilífðar, enda er það greinilega skilningur t.d. sjútvrh. eins og kom fram í vor þegar hann hugðist gefa steinbítsveiðar algerlega frjálsar. Þeir sem brugðust ókvæða við þeim gerningi voru útgerðarmenn sem höfðu keypt steinbítskvóta fyrir t.d. 50 millj. örfáum mánuðum eða vikum áður, og sáu sína sæng útbreidda. Ef þeir hefðu beðið aðeins hefðu þeir mátt fara á fríar steinbítsveiðar. En sem betur fer fór það ekki eins og ætlað var í fyrstu með steinbítinn.

Síðan hefur verið sagt að landsbyggðarskattur yrði svo mikill ef veiðiheimildir yrðu boðnar út. Ég spyr eins og margir aðrir: Hversu margar milljónir króna eða hversu margir milljarðar hafa verið greiddir af sjómönnum í dag og útgerðarmönnum, helst lítilla útgerða, í leigu- og kvótakaup? Ég er alveg sannfærður um að þær upphæðir eru ævintýralegar háar og sem betur fer hefur hv. 3. þm. Vesturl., Jóhann Ársælsson, komið með skýra og gagnmerka fyrirspurn í því sambandi.

Vissulega er það rétt að mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa keypt til sín aflaheimildir af öðrum. En í tillögum okkar, Samfylkingarinnar, um fyrningarleiðina erum við að nefna ýmsa möguleika til að bæta þetta. Við getum hugsað okkur, svo að ég taki einfalt dæmi, landeiganda nokkurn sem á lóð við bæjarmörk, þorp sem hefur myndast, og lóðir vantar. Ef ekkert gengur eða rekur um að fá lóðir á því landi, er landið tekið eignarnámi í almannaþágu en landeigandinn fær bætur fyrir. Þetta er það sem við erum að benda á að verði auðveldlega hægt. Við gætum kallað það mjúka lendingu. Sú lending yrði mýkri en lendingin sem blasir við í fjármálum ríkisins og margra heimila og fyrirtækja í landinu sem horfa á vexti og undarlega útreiknaðar verðbætur hækka lánin dag frá degi um milljónir á milljónir ofan og um leið skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna sem ekki eru of vel sett fyrir.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra ef hann gæti svarað henni á eftir, en það er kannski ekki víst að hann hafi þær upplýsingar og það verður þá bara að hafa það, hvort hann hafi heyrt að norsk fyrirtæki séu farin að leggja inn milljónir króna eða jafnvel hundruð milljóna, a.m.k. tugi milljóna inn á reikninga íslenskra útgerðarfyrirtækja svo þau geti leigt kvóta hér og veitt fyrir þessi fyrirtæki. Ég hef heyrt þessu fleygt. Ég vona að það sé ekki rétt en hæstv. ráðherra veit þetta kannski betur því að auðvitað heyrir hann margt og mikið sem er að gerast í þessum geira.

Á sínum tíma þegar verið var að úthluta byggðakvóta var óskað eftir því að sveitarfélögin kæmu með tillögu um hvernig ætti að úthluta kvótanum. Sem betur fer var samkomulag og oftast samkomulag um hvernig þetta var gert og í mörgum tilvikum reyndist þetta mjög vel og jákvæð aðgerð að mínu viti. En eitt sveitarfélagið óskaði eftir því að fá að setja aflann eða kvótann, veiðiheimildina á markað þannig að þeir bátar sem tilheyrðu því byggðarlagi mundu fá að bjóða í. Við því var víst ekki hægt að verða þar sem talið var að lög hömluðu slíkri aðgerð. En þarna hefði verið kærkomið tækifæri til að sjá hvernig þetta hefði virkað. Þetta var lítið dæmi.

Einnig má velta því fyrir sér að Sjálfstfl., sem vill kenna sig við frjálsa samkeppni og frjálsa viðskiptahætti og hafa allt opið, skuli berjast svona ákaft gegn því að opna markaðinn, að sem flestir hafi aðgang að honum. Þess í stað eru öll teikn um að þeir vilji loka þessu og viðhalda því kerfi sem hefur verið að myndast, þ.e. að aflaheimildirnar fari á færri og færri fyrirtæki. Er það draumur einhverra að þetta endi síðan bara í einu fyrirtæki? Og hvað er það þá orðið? Er það þá ekki orðið eins og það var í Rússlandi þegar aðeins einn hafði vald yfir öllu og síðan fáir kommissarar sem voru með á jötunni. Þetta er alvarlegt mál og við verðum að breyta þessu kerfi með því að ganga þá leið sem Samfylkingin er að leggja til. Allur þingflokkur Samfylkingarinnar stendur að þessu einhuga.

Sjálfstfl. er tvístruð hjörð hvað þetta varðar. Landsfundarfulltrúar voru u.þ.b. 1.200 en tæplega 700 sem tóku þátt í kosningunum um þessi mál. Ég spyr: Hvar var allt fólkið? Er öllum sama eða þorðu hinir sem ekki greiddu atkvæði að tjá skoðun sína? Voru þeir hræddir við eitthvert vald sem er eitt og sterkt?