Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 16:50:37 (603)

2001-10-16 16:50:37# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Sjútvrh. nefndi fjórða áratuginn og að áður hefði björgin líka verið seld frá bæjunum og nefndi það þegar togaraflotinn var seldur til Nýfundnalands. Nú talar sjútvrh. um grundvallaratriði. Veit hann ekki um lífshættina fyrir vestan? Veit hann ekki hvernig menn gátu tekið höndum saman og sýnt samtakamátt af því að það var hægt að sækja sjóinn? Veit hann ekki að fjölskyldufeður með mörg börn en enga peninga lögðu saman og stofnuðu Samvinnufélag Ísfirðinga, bátaútgerð sem átti eftir að verða lyftistöng fyrir bæjarfélagið árin á eftir, áratugina á eftir, af því að það var hægt að sækja sjóinn. Það er grundvallarmunur á þeim tíma og deginum í dag. Þetta er það sem við erum að ræða um, þennan grundvallarmun í sjósókn.

Herra forseti. Ráðherrann er með ólund yfir því að Samfylkingin hafi ekki viljað taka þátt í niðurstöðu hjá nefndinni. Útgerðin hefur ekki borgað skatta. Sjálfstfl. og fyrirliði ríkisstjórnar vill ekki fyrningu en hvaða skref verður veiðigjaldið? Það höfum við ekki fengið að heyra.