Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:04:27 (612)

2001-10-16 17:04:27# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:04]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu minni taldi ég Gugguna vera tákn um þær breytingar sem hafa orðið á útgerð á Vestfjörðum. Ég tel að sú útgerð sé að festa sig í sessi og allt það sem ég hef lagt til í þessu efni hefur miðað að því. Hins vegar lýsti hv. þm. algerlega hugarfari sínu og síns flokks gagnvart sáttinni. Hann orðaði það svona nokkurn veginn, ég skrifaði það niður jafnóðum: ,,Ef það var sáttatónn, af hverju var ekki gengið lengra til móts við okkur?``

Þetta er útgangspunkturinn, herra forseti. ,,Af hverju var ekki gengið lengra til móts við okkur?`` Það er ekki það að hv. þm. og hans flokkur hefði átt að koma til móts við útrétta sáttarhönd. Nei, það var ekki málið. Það átti að ganga lengra til móts við hann en þar með eru menn auðvitað að viðurkenna að búið var að ganga til móts við hann. Hann vildi bara ekki taka í útréttu höndina heldur sló hann á hana og vildi ekki taka þátt í sáttinni. Hann verður að lifa við það, hann sló á höndina.