Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:08:37 (616)

2001-10-16 17:08:37# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:08]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þessar umræður hafa verið fróðlegar og ekki síður það frv. sem hér liggur fyrir. Maður gat auðvitað sagt sér það sjálfur um leið og það var lagt fram að þegar fyrrv. alþýðubandalagsmenn vilja gera það að grundvelli í atvinnugrein að frjálst markaðsuppboð eigi að stjórna veiðum og vinnslu er auðvitað eðlilegt að leggja við hlustir og velta fyrir sér hvað sé á ferðinni.

Kannski er best að athuga fyrst það sem stendur í greinargerð með þessu frv., í kafla sem hefst með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

,,Grundvöllur stefnumörkunar.`` Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Stjórn fiskveiða hefur um árabil verið eitt helsta deilumál meðal þjóðarinnar. Eftir að ljóst varð að takmarka þyrfti aðgang að auðlindinni hefur verið harðlega gagnrýnt að sameign þjóðarinnar skuli hafa verið afhent tilteknum aðilum án endurgjalds og að þeir hafi síðan verið sjálfráðir um hvort þeir nýttu veiðiréttindi sín til eigin veiða, leigðu þau öðrum eða seldu. Atvinnuréttindum í greininni og aðgangi að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar var þannig breytt í sérréttindi. Þar með var jafnræði og atvinnufrelsi í þessari grein raskað. Útgerðarmenn hafa fengið að hagnast í skjóli sérréttinda samkvæmt núgildandi kerfi. Það verður aldrei sátt meðal þjóðarinnar um núgildandi úthlutun veiðiréttinda. Það stangast á við réttlætiskennd landsmanna að helsta auðlind hennar skuli þannig afhent fáum sem ígildi eignar.``

Þetta er lýsing hv. þm. á því þegar kvótakerfið var tekið upp. Nú er nauðsynlegt að hann og þeir aðrir flutningsmenn sem standa að þessu frv. útskýri nokkru nánar hvað fyrir þeim vakir.

Ég var á Alþingi þegar þessir atburðir gerðust og man vel eftir því alvarlega ástandi í fiskveiðimálum þjóðarinnar þegar við sáum fram á að þær aðhaldsaðgerðir sem við höfðum áður beitt dugðu hvergi nærri til. Sú regla hafði verið tekin upp á 8. áratugnum, eins og hv. þm. man, að takmarka fiskiskipastólinn með þeim hætti að óheimilt var að flytja fiskiskip til landsins nema annað væri lagt til hliðar eða úrelt í staðinn. Nokkur dæmi eru um að slíkt var gert. Það var að sjálfsögðu kostnaðarsamt fyrir útgerðina en eins og hv. þm. man kannski, ég veit það ekki, voru oft á þeim tíma mikil átök um það hvort sjávarútvegspláss ættu að fá heimild til þess að kaupa til landsins ný fiskiskip vegna þess að þau fiskiskip sem fyrir voru höfðu verið seld á brott. Í sumum tilfellum höfðu þau strandað.

Einstaka sinnum kom það fyrir, og ég man tvö dæmi um það, að staðir fengu togara fram hjá þessari reglu sem ég er að lýsa. Annar togarinn fór til Ísafjarðar og hinn til Hafnarfjarðar. Svo munum við að sjálfsögðu líka eftir því þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens veitti heimild til þess að kaupa nýjan togara erlendis frá, Stakfellið, til Þórshafnar. Þetta var undantekningin. En aðalreglan var sem sagt sú að banna innflutning á fiskiskipum nema annað jafnstórt skip færi úr landi. Með þessum hætti var búið að takmarka mjög aðgang að auðlindinni og þetta hafði það í för með sér að verð á fiskiskipum hér á landi var hærra en raunvirði skrokksins á hverjum tíma vegna þess að í kaupunum fólst veiðirétturinn. Ég veit að hv. þm. man mjög vel eftir þessu. Þá trúðum við því að sóknarstýringin mundi duga.

Hins vegar kom síðar á daginn að sóknarstýringin dugði hvergi nærri. Mun meira var veitt en gert hafði verið ráð fyrir og það olli því m.a. að þorskstofninn hrundi. Þegar síðan kvótakerfið var lögfest var í því visst svigrúm. Annars vegar var gert ráð fyrir föstum kvóta og hins vegar var gert ráð fyrir því að skip mættu hafa sóknarmark. En aðalatriðið var að heimildir til þorskveiði voru skornar niður um 40% eða svo ef ég man þetta rétt.

Nú segir að fram að þeim tíma hafi skipin mátt veiða að vild. Útgerðum var frjálst að beita skipum sínum eins og þær framast gátu, að vísu með þeim takmörkunum sem fólust í sóknarmarkskerfinu. Nú vil ég spyrja hv. þm., 1. flm. þessa frv., Jóhann Ársælsson, beint að því hvort þessi upprifjun sem ég er hér með samrýmist þessari setningu sem ég vil nú lesa úr greinargerð hans, með leyfi hæstv. forseta:

,,Atvinnuréttindum í greininni og aðgangi að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar var þannig breytt í sérréttindi.``

[17:15]

Í hverju fólust sérréttindin? Í því að fá að veiða minna en áður? Í því að fá ekki að nota fiskiskipin með jafnmiklu afli og áður? Við höfum hér á þingi hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, sem á þessum tíma var togarasjómaður fyrir vestan. Hann var formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins um fjölmörg ár. Er það reynsla hans frá þessum tíma að útgerðarmanni hans á þeim tíma, Jóakim Pálssyni, hafi verið veitt einhver sérréttindi með lögfestingu kvótakerfisins? Lítur hann svo á? Auðvitað ekki. Hann lítur auðvitað ekki svo á að sú útgerð hafi fengið kvótann gefins á þeim tíma, enda fékk útgerðin ekki þennan kvóta gefins. Þau réttindi sem útgerðarmenn og skipstjórar höfðu til að beita sínum skipum og sínum bátum voru takmörkuð. Hér stendur síðan, með leyfi hæstv. forseta:

,,Útgerðarmenn hafa fengið að hagnast í skjóli sérréttinda samkvæmt núgildandi kerfi.``

Ég vil spyrja hv. þm. hvort þeir útgerðarmenn, sem höfðu gert út á árunum áður en kvótakerfið kom til sögunnar og urðu fyrir þeirri skerðingu sem kvótakerfið hafði í för með sér, hafi hagnast. Þekkir hv. þm. ekki dæmi þess að útgerðarmenn og skipstjórar á þessum tíma misstu mikið af eigum sínum? Sumir urðu gjaldþrota vegna þess að þeir máttu ekki beita skipum sínum eins og áður. Þekkir hann ekki þessi dæmi? Ég þekki þau. Sú sorgarsaga gerðist ekki aðeins á Norðausturlandi. Hún gerðist víðar.

Þetta vita flutningsmenn. Þeir vita að það sem ég segi hér er rétt. Þeir vita líka að þegar kvótakerfið var lögfest heyrðist ekki ein einasta rödd í þessu þingi, hvorki frá framsóknarmönnum, sjálfstæðismönnum, alþýðuflokksmönnum né alþýðubandalagsmönnum, sem sagði að svipta ætti alla útgerðarmenn landsins rétti til veiðanna og bjóða veiðiheimildirnar upp á þeim tíma. Þær raddir heyrðust ekki, auðvitað ekki. Hvers vegna ekki? Vegna þess að það hefði verið eignaupptaka. Hv. þm. mætti kynna sér hvað skrifað hefur verið um þessi mál síðan. Ég minnist þess í því sambandi að hann hefur stundum talað um það að hann vilji virða stjórnarskrána en um það hafa verið skrifaðar glöggar ritgerðir, m.a. af Sigurði Líndal prófessor, að það hefði verið stjórnarskrárbrot á þeim tíma að svipta menn kvótanum. Stjórnarskrárbrot, hvorki meira né minna. Enda hefur Alþingi ekki einhliða heimild til þess, fyrirvaralaust og að ástæðulausu, að svipta menn atvinnuréttindum og eigum sínum. Af þeim sökum var farið mjög gætilega í sakirnar þegar kvótalögin voru sett.

Ég vil líka minna á að þetta er ekki í fyrsta skipti sem nauðsynlegt hefur verið að setja kvóta á fiskiskip. Hér í þingsalnum situr núna hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson. Honum er vel kunnugt um að sá háttur var uppi hafður á Ísafirði að afhenda nokkrum bátum allan rétt til veiði á innfjarðarrækju í Ísafjarðardjúpi. Það voru nokkrir menn sem máttu veiða rækju eftir þar til settum reglum. Ég man ekki eftir því að Ísfirðingar hafi á þeim tíma talað um að rétt væri að svipta þá menn rétti til veiðanna og bjóða þann rétt upp. Ég man ekki eftir því. Mig minnir þvert á móti að krafa þeirra hafi verið að þeir mundu halda þessum rétti til að veiða einir þá rækju sem var í Ísafjarðardjúpi.

Hið sama gerðist við Húnaflóa. Ég man eftir því að ákveðinni útgerð var veitt leyfi til að veiða kúfisk fyrir vestan og annarri útgerð fyrir norðan. Það má segja að það hafi kannski verið að afhenda mönnum mikil réttindi án endurgjalds, að leyfa þeim að fara í kúfiskveiðarnar. Hitt er auðvitað algerlega ljóst að við höfum verið með kvótaveiðar hér lengur en kvótaandstæðingar kæra sig um að muna. Ég verð að segja, herra forseti, að mér er það fullkomlega óskiljanlegt þegar menn koma upp í þennan stól, menn sem hafa haft atvinnu af fiskveiðum eða þjónað veiðibátaflotanum, og halda því fram eins og ekkert sé að það sé sjálfsagt að taka 10% af útgerðinni á hverju ári og bjóða upp.

Hvað finnst t.d. hv. þm., sem er kunnugur á Akranesi og kunnugur á Snæfellsnesi, Jóhanni Ársælssyni, hv. 3. þm. Vesturl., eðlilegt að bátar almennt á hans svæði megi missa mörg prósent af útgerð sinni þannig að útgerðarmaðurinn geti haldið áfram útgerðinni? 10%, 20%, 30%? (Gripið fram í.) Hann þekkir þar mjög vel til, þessi hv. þm. Hann þekkir þar mjög vel til og hann veit hvað hann er að tala um. 10% fyrning á hverju ári er það sem hann talar um. Hvað mega þessar útgerðir við því að missa mikið?

Ég vil segja í annan stað: Hvernig stendur á því að svo margir ungir menn kjósa sér að starfa annars staðar en í sjávarútvegi? Auðvitað vegna þess að þessi atvinnugrein er meira rægð en nokkur önnur atvinnugrein í landinu þó að við eigum allt okkar líf undir henni og efnahag okkar. Ræða þessa hv. þm. var gott dæmi um þá lausung í málflutningi sem einkennir suma menn í þingsalnum og væri vissulega ástæða til að hafa um það langa ræðu. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hluta úr einni málsgrein 3. gr. frv., svohljóðandi:

,,Sé atvinnuöryggi í sjávarbyggð ógnað vegna skorts á afla til vinnslu er ráðherra þó heimilt að láta bjóða aflaheimildir sérstaklega til leigu til útgerða sem skuldbinda sig til að landa afla til vinnslu þar.``

Í þessu sambandi er margt að athuga. Það er t.d. alveg ljóst, ef ég man rétt, að hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, getur ekki fallist á að ríkið geti þannig skuldbundið sjómenn og útgerðarmenn til að landa á ákveðnum stöðum fyrir ákveðin fyrirtæki. Fróðlegt væri að heyra hvað hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, hv. 4. þm. Vestf., segir um þá málsmeðferð. Ég man ekki betur en hann sé þeirrar skoðunar að það eigi að vera fullkominn aðskilnaður veiða og vinnslu og hefur hann með þeim málflutningi haldið fram alveg gagnstæðum skoðunum við þær sem fyrrverandi ráðherrar Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum höfðu, t.d. Matthías Bjarnason.

Ég vil líka spyrja hv. þm., af því að hann flytur þessa tillögu. Við skulum rifja upp nokkur pláss. Við getum byrjað í mínu kjördæmi, þar er ég kunnugastur.

Ætli sjávarútvegsbyggðinni Hrísey hafi verið ógnað vegna þess að þar vantaði fisk til vinnslu? Hvernig ætli þetta sé á Húsavík? Hvernig gengur með saltfiskverkunina á Kópaskeri? Hvernig er saltfiskverkunin á Raufarhöfn? Er miklu af íslenskum fiski landað þar? Hvernig gengur fiskverkun á Þórshöfn? Svo ég taki bara þessa staði í mínu kjördæmi. Meinar hv. þm. að það eigi að grípa inn í, samkvæmt þessari grein, og bjóða aflaheimildir sérstaklega til leigu til þess að afla hráefnis til þessara staða? Við getum líka talað um Ólafsfjörð í þessu sambandi.

Það vantar víðar fisk, t.d. á Bakkafirði og Vopnafirði. Við getum haldið svona áfram, á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Um hvað er hv. þm. að tala? Ég geri ráð fyrir því að hann geri sér jafnmikla grein fyrir því og ég að þessi orð eru sett á blað af því að þingmaðurinn og þingflokkurinn vita að þeir þurfa aldrei að standa við þau. Þeir vita að það er fullkomlega ómögulegt að hægt sé að útvega leiguheimildir á fiskikvóta til að fullnægja þeirri þörf sem er á fiski til vinnslu um allt land án þess að skapa vandræði á öðrum stöðum. Hvaða aðrir staðir eru það sem hv. þm. hefur í huga þegar hann er að tala um að færa til aflann, leiguafla hvaðan? Er hann að tala um að fara með leiguafla frá Akranesi, frá Grundarfirði, frá Ólafsvík frá Hellissandi þangað norður? Um hvað er hv. þm. að tala? Hvaða staður er það á landinu sem hefur úr svo miklum afla að moða að hann geti liðsinnt öðrum byggðarlögum án þess að það komi niður á fiskverkafólki á þeim stað? Hvað er hann að tala um mikinn fisk, mikinn afla í heildina, þegar hann er að tala um að færa fisk frá einum stað til annars til að halda uppi fiskvinnslu? Þegar hann talar með þessum hætti er hann þá að tala um að útgerðarfélögin og staðirnir séu aflögufærir til fiskvinnslunnar alla mánuði ársins? Hvað er hann að tala um? Heldur hv. þm. að einn einasti sjómaður á landinu eða ein einasta fiskverkakona trúi að í þessum fyrirheitum felist einhver glæta um úrlausn, að menn viti ekki hvernig Íslendingar hafa lifað af sjávarafla og viti ekki hvernig landið er byggt upp?

Það er auðvitað lágmark þegar heilir þingflokkar flytja mál, þar á meðal menn sem hafa unnið og þjónað útvegnum, flytji tillögur sem eru nálægt þeim raunveruleika sem við búum við í landinu, eitthvað nálægt atvinnuuppbyggingu í landinu.