Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:28:41 (617)

2001-10-16 17:28:41# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefði verið ástæða til að fagna komu hv. 1. þm. Norðurl. e. í þessa umræðu. Hann velur hins vegar þann kostinn að koma hingað þegar allir hafa lokið ræðum sínum og heimtar svör við hinum fjölbreytilegustu spurningum sem maður á að svara á tveimur mínútum og illa það. Mér finnst að hæstv. forseti þingsins ætti að veita mönnum tækifæri til að svara orðum hans almennilega.

Hann spurði hvort menn hefðu hagnast í skjóli sérréttinda. Hann vildi að ég færði rök fyrir því. Ég þarf ekki að færa önnur rök fyrir því en að benda mönnum á það hvernig menn hafa selt aðganginn að þessari auðlind á okurprís, farið út með jafnvel hundruð milljóna. Ég þarf ekki að fara lengra með það.

Hann hélt því fram að það hefði verið stjórnarskrárbrot að svipta menn veiðirétti í upphafi. Ég hef aldrei haldið því fram að það hefði átt að svipta menn veiðirétti í upphafi. Ég held því hins vegar fram að það að hafa þetta kerfi lokað til lengdar sé brot á atvinnuréttindum og jafnræði. Því höfum við haldið fram allan tímann. Við höfum aldrei verið á móti því að menn sem fyrir voru í útgerð þegar kerfið var sett á gætu haldið áfram að veiða, en það var fáránlegt, óréttlátt og hefur valdið miklum vanda um byggðir landsins, að menn skyldu ekki bera gæfu til að koma á jafnræði til að nýta auðlindina í framtíðinni.

Hv. þm. spurði líka hvers vegna menn vildu ekki fara í útgerð í dag og gaf sér svarið. Það er út af rógnum um kerfið. Hann ætti að spyrja þá sem langar til að gera út hvers vegna þeir séu ekki í útgerð. Hvaða svar skyldi hann fá? Það er ekki möguleiki að stofna til útgerðar í dag svo að glóra sé í.