Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:33:02 (619)

2001-10-16 17:33:02# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:33]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mönnum voru afhent sérréttindi án endurgjalds. Menn fengu ekki bara rétt til þess að sækja sjó. Menn fengu líka rétt til þess að selja öðrum aðganginn að auðlindinni og á því er mikill munur. Menn fengu sérréttindi. Menn fengu að vera í friði fyrir samkeppninni. Það fengu engir aðrir að komast að og þess vegna sitja menn í landi sem annars væru sjómenn. Það eru sérréttindin sem við erum að tala hér um.

Það hvort menn hafi fengið einhver réttindi til fiskveiða til viðbótar við það sem þeir höfðu er ekki spurning sem þarf að svara hér, heldur því hvort að réttlæti hafi verið fólgið í því að festa til frambúðar í sessi sérréttindi handa þeim sem voru svo heppnir að vera við fiskveiðar á Íslandi á þeim þremur árum sem menn tóku viðmiðunina af eða fengu úthlutanir með ýmsum skrýtnum hætti sem hv. þm. hefur staðið að hér með ákvörðunum á Alþingi að láta menn hafa veiðiréttindi út á.