Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:34:16 (620)

2001-10-16 17:34:16# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég rakti það í ræðu minni að það var á áttunda áratugnum sem sú regla var tekin upp að veiðiréttur fylgdi skipum og það var á áttunda áratugnum, fyrir daga kvótakerfisins, sem skip hækkuðu af þeim sökum í verði. Þetta veit ég að hv. þm. veit þó að hann kjósi að láta öðruvísi.

Svo vil ég aðeins rifja upp skemmtilegt samtal sem ég átti við Gylfa Gunnarsson útgerðarmann í Grímsey. Þar sem við sátum og spjölluðum saman á bátnum hans sagði hann við mig: ,,Jæja, Halldór minn. Ég er nú einn af þessum kvótakóngum sem hef fengið þetta allt saman gefins.`` (JÁ: Þú hefðir átt að ...) Þetta sagði blessaður karlinn Gylfi Gunnarsson í Grímsey. Hann var einn af þessum sægreifum sem verið er að öfundast yfir. En hvað hefur hann gert af sér, sá maður, að flytjast út í Grímsey frá Akureyri á unga aldri og stunda þar sjóinn allan tímann? Og hann er sægreifi.