Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:35:32 (621)

2001-10-16 17:35:32# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:35]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er leitt að hv. þm. Halldór Blöndal skyldi ekki hafa komið fyrr inn í þessa umræðu meðan menn áttu eftir einhvern ræðutíma. Hann hefur komið hér fram með margar spurningar og margar fullyrðingar um ýmislegt. Sumu af því hefur hann beint til mín. Þó ætla ég að byrja á því að spyrja hann einnar spurningar.

Ég tók eftir því að hann talaði um að þorskstofninn hefði hrunið. Ég vil bara spyrja: Hvenær hrundi þessi þorskstofn? Hvaða ár var það sem hann hrundi? (JÁ: Og hvaða kerfi var í gangi?) Bara til að ég átti mig á því í hvaða tímaröð hann er að hugsa hlutina. Hann spurði reyndar hvort ég áliti að það hefði verið stjórnarskrárbrot ef menn hefðu verið sviptir veiðirétti. Ég vil tala um þetta sem veiðirétt eftir að við tókum upp kvótakerfið vegna þess að það var ekki einhliða kvótakerfi eins og ég veit að hv. þm. Halldór Blöndal veit mætavel. Það var bæði kvótakerfi og sóknarkerfi. Menn höfðu val. Menn höfðu nánast val allan þann áratug frá 1984 og fram á árið 1990 til að raða sér að nýju upp í fiskveiðum. Þeir sem minni aflaheimildir höfðu gátu valið sér sóknarmark og þannig endurraðað sér í öllu nema þorski framan af, og síðan þorski og karfa síðar. Síðan gátu skip farið á milli svæða og þá fengu menn meðalkvótasvæði. Ýmsar fleiri aðferðir voru til þess að menn sem töldu sig hafa minni veiðiheimildir gætu lagað fyrir sig stöðuna. En rétt er að vekja athygli á einu. Árið 1984 fiskaðist nánast upp á tonn sami þorskafli á Íslandsmiðum og árið 1983. Hins vegar sagði spá fiskifræðinga að við mundum fara mjög neðarlega. En við fiskuðum yfir 280 þús. tonn, ef ég man rétt, bæði árin.