Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:37:43 (622)

2001-10-16 17:37:43# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:37]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. þm., að svo miklu leyti sem maður getur dregið ályktanir af ræðu hans, vill hann ekki halda því fram að Jóakim Pálsson hafi fengið einhver sérréttindi með kvótakerfinu. Auðvitað er mikilvægt að fá þá viðurkenningu frá hv. 4. þm. Vestf., Guðjóni A. Kristjánssyni, sem þá útgerð þekkti mjög vel, að Jóakim Pálsson var enginn sérréttindagaukur, enginn sæpáfi sem fékk allt upp í hendurnar og afhent af ríkinu, eins og verið er að gefa í skyn af mönnum eins og hv. 3. þm. Vesturl., Jóhanni Ársælssyni, heldur hafði hann og hans menn, bæði sem skipstjóri fyrst og síðan sem útgerðarmaður, unnið fyrir því sem hann átti og unnið fyrir því sem hann hafði. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga.

Hitt er svo aftur ekki ný bóla að hv. þm. tali hér í þeim tón að alltaf sé jafnmikill þorskur í sjónum umhverfis landið. Það er ekki svo. Eins og hann á að vita og á að muna varð það hlutskipti Davíðs Oddssonar þegar hann tók við sem forsrh. að skerða mjög verulega veiðar úr þorskstofninum, veiðiheimildir skipanna --- ég man ekki hvort það var um 50%. Hv. þm. man það áreiðanlega betur en ég. En það var mjög tilfinnanlegt --- vegna þess að menn litu svo á að þorskstofninn væri í hættu.