Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:41:55 (625)

2001-10-16 17:41:55# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt er að sjá hv. 1. þm. Norðurl. e. taka þátt í umræðunni. Þó hefði verið mun ánægjulegra ef hann hefði komið fyrr því að ræður hans hafa verið mjög skörulegar og áheyrilegar. Ég þakka fyrir það.

Hins vegar langar mig til að spyrja hv. þm. hvað hann óttist við frjálsan markað á aflaheimildum og fyrningarleiðina. Hann spurði hvað yrði ef 10% væru tekin af fiskveiðiflota Snæfellinga. Það er eins og hann geri ráð fyrir að þessum heimildum verði bara varpað út í myrkrið og þær komi ekki aftur inn þannig að hægt sé að veiða þær. Það er gert ráð fyrir að þær fari á markað.

Það er líka talað um það í greinargerðinni að hægt sé að bæta útgerðarmönnum sem keypt hafa sér kvóta af öðrum það tjón sem þeir kunna að verða fyrir. Það má því koma til móts við þá og ekkert hindrar að svo verði. Þetta hefur komið fram í umræðunni og nefndi ég það fyrr í dag. Ég vil segja að þetta er mjög vel mögulegt og minni á að hv. 3. þm. Vesturl. nefndi þetta einmitt í störfum sínum við sáttatillöguna, bara svo að ég minni á það.

Reyndar vil ég segja að það er mjög ósmekklegt að tala eins og við séum að ræða óvirðulega um duglega og dugmikla útgerðarmenn sem stundum hafa fengið á sig nafnið sægreifar. Þetta eru menn sem eru alls góðs maklegir og eiga virðingu skilda. (Forseti hringir.) En kerfið eins og það er í dag er orðið mjög vont og slæmt.