Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:13:03 (635)

2001-10-16 18:13:03# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þess að hv. þm. byrjaði síðast á því að kenna mér hvernig ég ætti að biðja um mína ræðu þegar ég væri með svona umræðu vil ég upplýsa að ég gerði það en hæstv. forseti, 1. forseti þingsins, bað um orðið eftir að ég hóf þá ræðu. Þannig átti ég ekki kost á því að koma henni aftur fyrir hans ræðu. En það er önnur saga og ætla ég ekki að tala meira um hana.

Útgerðir allra skipa geta gert hvað sem er við veiðiheimildirnar, sagði hv. þm. áðan þegar hann var að tala um okkar tillögur. Þetta er alrangt. Það er alfarið gert ráð fyrir því að það verði úthlutað á skip og að ekki verði hægt að selja veiðiheimildirnar aftur nema 50% á því ári sem yfir stendur, þ.e. að því aflamarki sem úthlutað er fyrir árið sem yfir stendur. Þannig er það þá í samræmi við framsalið sem er núna fyrir í kerfinu meðan aðlögunartíminn stendur.

Hv. þm. fór að tala um að ég væri úr Alþýðubandalaginu og að ég vildi að ríkið ætti allt. Ef það er þannig er þjóðin orðin býsna sósíalísk í þessu máli og hefur verið það alla tíð. Hún hefur viljað eiga þetta, hún hefur viljað eiga auðlindina. Sjálfstfl. vill hins vegar að þeir sem eru í útgerð eigi auðlindina. Þar greinir Sjálfstfl. og þjóðina á. Ég er mjög stoltur af því að ég skuli vera með sömu skoðun og þjóðin hefur almennt á þessu mikilvæga atriði.

Síðan var hv. þm. að spyrja mig hvernig uppboðið mundi virka. Ég hef ekki góðan tíma til að lýsa því. Ég get þó sagt að útgerðarmenn voru ekki í vandræðum með að finna sér grundvöll til að versla með veiðiheimildir þegar þeir fengu tækifæri til þess. Það þurfti ekki að kenna þeim það. Þeir gerðu það á fáeinum vikum eða mánuðum eftir að búið var að gefa þeim tækifæri til þess að framselja veiðiheimildirnar.