Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:15:21 (636)

2001-10-16 18:15:21# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist einmitt vera að koma í ljós enn og aftur að hv. flutningsmenn geri sér ekki grein fyrir því hvað það þýðir sem þeir eru að leggja hér til. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Útgerðir allra skipa sem leyfi hafa til veiða samkvæmt lögum þessum skulu hafa jafnan rétt til að bjóða í þær aflaheimildir sem í boði verða ...``

Það segir, útgerðir allra skipa. Útgerð er ekki sama og skip. Það eru skip sem hafa heimildirnar í dag. Það eru ekki útgerðirnar heldur skipin. Ég átta mig ekki á því hvað er verið að meina hérna. Annaðhvort veit hv. flm. ekki betur ellegar hann er vísvitandi að leggja til eitthvað sem er allt annað en hann er samt að meina. Ég held að málið hljóti að þurfa frekari skýringa við af hálfu flutningsmanna þegar það kemur til nefndar.

Ég hef út af fyrir sig ekkert verið á móti því, herra forseti, að þjóðin sé kölluð eigandi auðlindarinnar í hafinu, enda er það í eðli sínu svo að enginn einstaklingur getur slegið eign sinn á eitthvað í hafinu. Aftur á móti er veiðirétturinn, þ.e. aflaheimildin og veiðirétturinn á þeim fisk sem má veiða, eign útgerðarmannanna. Mér finnst mikill munur á því og hvort menn eigi einhverja fiska syndandi í sjónum um alla ævi og alla framtíð. Auðvitað getur þjóðin breytt þessu kerfi einhverntíma og lagað til ef hún æskir svo, en ég held að við deilum ekkert endilega um það að þjóðin geti átt ,,fiskinn í sjónum`` en að eftir sem áður hafi útgerðarmennirnir, skipin eða skipstjórarnir einir réttinn til að veiða fiskinn.