Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:17:43 (637)

2001-10-16 18:17:43# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagðist ekki hafa á móti því að þjóðin væri kölluð eigandi. Hv. þm. er kannski að vísa til þess að stundum er börnum leyft að eigna sér kindur á fjalli. Ég vandist því a.m.k. þegar ég var í sveit. Það þýddi ekkert endilega að maður hefði af þeim afraksturinn. En þetta er meira en svo. Þetta er stærra mál en svo að menn fái að eigna sér hluti. Þetta snýst um atvinnuréttindi. Þetta snýst um jafnræði til þess að taka þátt í þessum atvinnuvegi. Ég ætla ekki að segja meira um það því mig langar til að reyna að koma því til skila að það að allar útgerðir í þessari tillögu, eins og hv. þm. nefndi, skuli hafa jafnan rétt til þess að bjóða í þetta þýðir, ef hv. þm. hefur lesið frv. vel, að einungis er hægt að nota veiðiheimildirnar á skip og það er einungis hægt að framselja helminginn af þeim veiðirétti sem búið er að úthluta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Það er líka hægt í núgildandi kerfi og er haft þannig til samræmis. En þetta þýðir í raun og veru að útgerðir geta ekkert gert við veiðiheimildir sem þær fá úthlutað samkvæmt þessu kerfi annað en að nota þær af því að gert er ráð fyrir að þær skili þeim inn aftur ef þær nota þær ekki.

Svo nefndi hv. þm. að a.m.k. væri kominn tími til að loka síðustu smugunni, að nú stæði til að loka síðustu smugunni. Ég spyr hv. þm. og ég held að ástæða sé til þess að óska eftir því að hann svari því hér: Hvernig heldur hann að umhorfs væri í hinum ýmsu smærri byggðarlögum allt í kringum landið og jafnvel þeim sem við köllum stærri byggðarlög ef þessari smugu hefði verið lokað 1990 eins og lögin sem þá voru sett stóðu til? Heldur hann að það væri björguleg útgerð í hinum ýmsu smábyggðum allt í kringum landið sem eru að gera núna út með smábátum?