Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:24:07 (640)

2001-10-16 18:24:07# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:24]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það ekki þessum gömlu horfnu útgerðarmönnum að kenna hvernig komið er, að sjálfsögðu ekki. Þeir áttu upphafið að því að skapa þann mikla flota sem við eigum í dag (Gripið fram í.) og ber aflann að landi. Þeir byggðu upp flest þau frystihús sem starfa í dag. Það sem er í húfi eru störf þessara manna. Þetta er því alls ekki þeim að kenna. Það er frekar þeim að þakka að við skulum þó lifa við þær vellystingar sem íslenska þjóðin býr við í dag.

Það eru fyrst og fremst deilusérfræðingar þessarar þjóðar sem hafa getað komið upp þeirri öfund sem nú ríkir í kringum útgerðina þannig að ekki má nokkur einasti maður fara út úr útgerð með einhverjum hagnaði öðruvísi en að hrópað sé hér á torgum að hann hafi nánast stolið sameign þjóðarinnar og tekið með með sér. Það er náttúrlega óþolandi fyrir alvöru atvinnumenn í þessari grein að liggja undir þessum ámælum ár eftir ár og jafnvel áratug að verða, því þó að þessum mönnum þyki vænt um útgerðir sínar og störf og hafi áhuga á þessu þá dregur þetta smám saman máttinn úr kröftugustu mönnunum og þeir reyna að velja sér einhver önnur störf og við töpum einfaldlega frá okkur hæfasta fólkinu til þess að standa í útgerð. Ég held að mikil ástæða sé til þess að þeir menn sem hafa haldið uppi deilum í þjóðfélaginu í öll þess ár fari að átta sig á því hvað þetta getur haft alvarlegar afleiðingar.