Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:26:15 (641)

2001-10-16 18:26:15# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn að áfellast þetta fólk. Það er verið að áfellast kerfið. Ég segi svo ekki meira um það.

Minn gamli fyrrverandi félagi úr Alþýðubandalaginu, ef ég man rétt, hv. þm. Kristján Pálsson, þarf að tileinka sér það að hinn frjálsi markaður getur líka verið til góðs og það er það sem við sjáum í sambandi við uppboðsleiðina. Þegar við erum að tala um fyrningu, erum við ekki að tala um að fyrningaraflinn sé bara tekinn, honum hent út í myrkrið og ekki veiddur aftur. Það er gert ráð fyrir því að útgerðir muni bjóða í hann, og þegar það er gert í fyrsta sinn má segja --- útfærslan verður til umræðu í nefndinni --- að útgerðir sem hafa greitt fyrir muni fá það til baka í fyrsta sinn. En svo er reiknað með því að að lokum þróist þetta þannig að uppboðsfjárhæðirnar renni til samfélagsins sem gæti orðið m.a. til þess að efla aðra starfsemi í byggðunum og þá hafa fleiri möguleika til þess að koma að þessu, alveg eins og ungu mennirnir hér áður fyrr sem verið var að tala um áðan, sem horfðu út á sjóinn og vissu að þeir máttu róa, vissu að þeir gátu fengið sér bát, lítinn árabát, látið vini sína smíða hann eða smíðað hann með þeim og róið til fiskjar án þess að þurfa að kaupa til þess leyfi af þeim útgerðarmönnum sem þá voru í útgerð. Við þekkjum langa sögu um slíkt einokunarböl sem var á Íslandsmiðum um aldir.